Ísafjörður: Rafskaut byggir raforkuvirki á Sundabakka

Frá framkvæmdum við Sundabakka. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Í lok júní voru opnuð hjá Vegagerðinni tilboð í gerð raforkuvirkis á Sundabakka. Fimm tilboð bárust. Áætlaður verktakakostnaður var 60,1 m.kr.. Rafskaut ehf á Ísafirði bauð lægst 49,2 m.kr. eða 82% af áætlun.

Aðrir bjóðendur voru Rafverk AG ehf Bolungavík sem bauð 52,9 mkr., Póllinn ehf Ísafirði 56,2 m.kr., Rafal ehf Hafnarfirði 60,3 m.kr. og Orkuvirki ehf Reykjavík 63,0 m.kr.

Vegagerðin lagði til að samið yrði við lægstbjóðanda og var það gert.

Efni af Torfnesi flutt á Suðurtanga

Á sama fundi hafnarstjórnar var lagt fram erindi sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs þar sem mælst er til þess að skoðað verði að nýta efni af Torfnesi sem yfirlag á Suðurtanga. Talið er að 1800-2000 rúmmetrar af efni, mold og möl verði fjarlægt af grasvellinum vegna framkvæmdanna við gervigras í haust og þar sem vegalengdir eru styttri
frá Torfnesi, niður á Suðurtanga en að sækja það í námu er spurning hvort það væri ekki ódýrara fyrir báða aðila að nýta
þetta sem til fellur þarna frekar en að sækja þangað.

Hafnarstjórn tók jákvætt í erindið og fól hafnarstjóra að vinna málið áfram með sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs og leggja aftur fyrir nefndina.

DEILA