Færslu Flateyrarvegar yfir í Holtsodda andmælt

Í drögum að samgönguáætlun fyrir árin 2024-38 er lagt til að færa Flateyrarveg vegna snjóflóðahættu. Um er að ræða vegarkafla frá Flateyri og að þjóðvegi 60 , samtals 5,3 km vegarkafla. Verkinu er skipt í tvo áfanga. Þann fyrri sem unnin verði á árunum 2029-33 og er 1,3 km langur um Hvilftarströnd og sá seinni er 4 km langur frá Breiðadal að Selabóli og vinna á árunum 2034-38. Færa á veginn af ströndinni og yfir á Holtsoddann. Kostnaðurinn er áætlaður 1,1 milljarður króna um Hvilftarströndina og 1,650 milljarð króna, samtals 2.750 milljónir króna.

Peter Weiss, íbúi í Önundarfirði við Flateyrarveg sendi inn umsögn um samgönguáætlunina og er ekki par hrifinn af áformunum. Telur hann að vegalagning í gegnum fuglaverndasvæði á Holtsleirum kunni að reynast torsótt og tímafrek.
Arðsemismat um framkvæmdina ætti að hans mati að taka tillit til þess sem og arðsins sem fylgir lítt snortinni náttúru Holtsleira og Holtsodda, sem óhjákvæmilega yrði spillt með vegalagningunni.

Peter virðist sem ekki sé reiknaður inn sá „fórnarkostnaður sem tapast í náttúru, en Holtsoddi, Holtsengi og vöðin eru stórt samhangandi votlendi á náttúruminjaskrá, sem og útivistarsvæði. Arðsemismat virðist ekki taka tillit til þess.“

Þá muni við áætlaða breytingu lengjast vegalengdin til/frá Ísafirði um 25% úr 6,8 km í 8,6 km og muni nýi vegurinn liggja í gegnum votlendi/leirur/náttúruverndarsvæði og útivistarsvæði.

Vill Peter Weiss að tíminn verði notaður til þess að safna tölum og gögnum „til að ígrunda þessa framkvæmd vel og byggja á rökum og ekki á tilfinningum. Ef það verður ekki gert er verið að renna blint í sjóinn og í versta falli að setja 2,75 milljarða króna bókstaflega í sandinn.“

Þar sem færslan á veginum er ætluð til þess að koma í veg fyrir lokun hans og að mælikvarði hagkvæmra samgangna séu áhrifin á samgöngukostnað heimila vill Peter Weiss að tekjutap heimila og fyrirtækja vegna lokana á vegi 64 verði kortlagt næstu 10 árin til að meta kostnaðinn og endurmeta arðsemi af tilfærslu vegarins.

Loks stingur hann upp á að skoða tvo aðra kosti , jarðgöng milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar og vegskála á Flateyrarvegi:

„Fyrst verið er að hugsa stórt og verið var að nefna byggðaþróunarsjónarmið þá er spurning af hverju ekki var könnuð lagning jarðganga milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar með tilheyrandi arðsemismati, enda mundu þessi tvö sjávarþorp mynda einn sameiginlegan þjónustukjarna með tilheyrandi sparnaði í opinberri þjónustu til langs tíma, sem kann að vega upp hærra stofnkostnaði.
Og – ef menn vilja ekki hugsa alveg jafn stórt: Vegskálalausnin mætti skoða aftur þegar allur fórnarkostnaður er upp á borði og metinn.“

DEILA