Vestfirski fornminjadagurinn á laugardaginn í Súgandafirði

Vestfirski fornminjadagurinn verður haldinn laugardaginn 12. ágúst kl. 10-12:30 í skála Hallvarðs súganda í botni Súgandafjarðar. Dagskráin er fjölbreytt og m.a. sagt frá skálanum og byggingunni. Fjölmörg erindi verða á dagskrá. Meðfylgjandi er stutt lýsing á þeim.

Skálar landnámsmanna

Margrét Hrönn Hallmundsdóttir fornleifafræðingur hefur undanfarin ár verið að grafa upp landnámsskála á Vestfjörðum og víðar. Hún mun segja frá því hvað rannsóknir hafa sýnt um skálana, byggingarlagið, formið, gólfin, torfið, munina, stoðirnar, jarðhýsin, langeldinn, efnin í gólfinu o.fl. Margrét er hafsjór af fróðleik auk þess að hafa brennandi áhuga á landnámstímanum og öllu því sem tilheyrði fólkinu sem fyrst nam hér land. 

Vestfirskar bjarndýrasögur

Heimsóknir hvítabjarna til Íslands eru alltaf ævintýralegar og stundum standa sögurnar um þær nær þjóðsögum en sagnfræðinni. Jón Jónsson þjóðfræðingur á Ströndum mun segja nokkrar vel valdar sögur um samskipti fólks og bjarndýra fyrr á tímum. Nokkrir landnámsmenn verða nefndir til sögu, þ.á.m. söguhetjan Auðunn vestfirski og þjóðsagnapersónan Dýra-Steinþór.

Einnig verður sagt frá síðasta Íslendingnum sem féll fyrir hrammi ísbjarnar hér á landi og Jón mun upplýsa um þau ráð sem Strandamenn telja vænlegust við að sleppa frá svöngum ísbjörnum, rekist fólk á slíka á víðavangi. Slíkar upplýsingar geta bjargað mannslífum.

Grettir sterki Ásmundsson

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er mikill áhugamaður um Grettissögu en sú saga hefur verið ein vinsælasta Íslendingasagan.  Sagan er talin verið skrifuð á 14. öld og segir frá æsku og uppvexti Grettis, brekum hans og óláni, sem olli því að hann varð útlagi og þvældist um allt Ísland. Margir ofsóttu hann en einnig urðu margir til þess að hjálpa honum. Endalok Grettis urðu í Drangey í Skagafirði, en þar var hann drepinn.

Sveinn mun á leikrænan hátt segja frá sögunni og sýna m.a. hvernig hann var klæddur og hvaða vopn hann notaði. Einnig mun hann fara yfir rimmuna þegar hann var veginn, hvar höfuð hans og búkur eru grafin en Þorbjörn Öngull sem drap Gretti tók höfuðið af honum og fór með það til móður Grettis.  Í lokaatriðinu mætir Þorbjörn Öngull og drepur Gretti, aftur…

Sögur við langeldinn


Öldum saman sátu kynslóðir Íslendinga við ljós af eldi og hlustuðu á sögur.
Eyþór Eðvarðsson mun bregða sér í hlutverk sögumanns og segja söguna um selafólkið, sem er þekkt orkneysk þjóðsaga, og tvær aðrar sögur, annars vegar um Duggholufólkið sem er gömul munnmælasaga um 18 manns sem drukknuðu í Duggholu skammt frá skála Hallvarðs og hins vegar söguna um Paurasel í Staðardal sem var byggt af kölska sjálfum.


Í lokin verður flutt eitt magnaðasta ljóð Matthíasar Jochumssonar, Grettisljóð, þar sem Grettir glímir við Glám.

DEILA