Lengjudeildin: Vestri upp í 5. sætið

Nacho Gil skorar fyrra mark Vestra.

Vestri er með 23 stig og er komið upp í 5.sæti Lengjudeildarinnar eftir sigur á liði Selfoss í gærkvöldi á Olísvellinum á Ísafirði. Öll liðin hafa nú leikið 15 leiki af 22.

Vestri byrjaði leikinn betur og skoraði tvö mörk á fyrstu 15 mínútunum. Nacho Gil gerði það fyrra með góðu skallamarki og Vladimir Tufegdzic bætti öðru við eftir mistök markvarðar Selfoss. Selfyssingar minnkuðu muninn 10 mínútum síðar með góðu marki. Í síðari hálfleik var jafnræði með liðunum en þó voru Selfyssingar á köflum aðgangaharðari og fengu nokkur góð færi sem þeir nýttu ekki. Vestra tókst að halda fengnum hlut og innbyrða þrjú dýrmæt stig í baráttunni um að komast í umspilssætin sem eru 2. – 5. sæti deildarinnar.

Vestri hefur átt betri leiki en það er einnig kúnst að ná sigri við þær aðstæður.

Liðin sem verða í þessum fjórum sætum spila sérkeppni um eitt laust sæti í Bestu deildinni og efsta liðið fer beint upp.

Vestri er í fyrsta sinn í sumar komið í umspilssæti og er reyndar með jafnmörg stig og liðið í 4. sæti, Leiknir í Reykjavík og með sama markamun en Breiðhyltingarnir hafa gert fleiri mörk og sitja því í 4. sætinu.

Afturelding er efst með 36 stig, ÍA næst með 30 stig og Fjölnir Reykjavík 29 stig.

Grótta er í 6. sæti með 20 stig og Selfoss í því 7. með 19 stig.

Leikið er þétt á næstunni og verða þrjár umferðir leiknar um helgina og í næstu viku.

DEILA