Samgöngufélagið: jarðgöng um Klettháls í einkaframkvæmd og hætta ferjusiglingum

Í umsögn Samgöngufélagsins um drög að samgönguáætlun fyrir árin 2024-38 er varpað fram þeirri hugmynd að jarðgöng í gegnum Klettháls verði einkaframkvæmd og tekin veggjöld af umferðinni auk þess sem hætt verði ferjusiglingum yfir Breiðafjörð og helmingur niðurgreiðslu ríkisins til ferjusiglinga gangi til þess að greiða kostnað við jarðgöngin.

Segir í umsögninni að innan fárra missera verði lokið verði við þverun Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar þannig að vegur þá leið styttist um eina 20 km og verði allur á láglendi.  „Verður þá ekki við öðru að búast en umferð jafnt fólksbíla sem flutningabíla milli norðanverðra Vestfjarða og Hringvegarins fari þessa leið í stað Ísafjarðardjúps enda um 50 km styttri.“

Helsti faratálminn verði þá Klettháls auk Dynjandisheiðar. Í drögum að jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar er nefndur sá möguleiki að gera 3,8 km göng undir hálsinn sem stytti leið um 4,5 km og er kostnaður áætlaður 10,4 millarða.kr. Í umsögn Samgöngufélagsins segir að margt vinnist með því að hafa trausta akleið á láglendi og að ekki sé réttlætanlegt að halda úti ferjusiglingum í núverandi mynd ef komast mætti þessa leið um traustan heilsársveg.

„Ef látið yrði af ferjusiglingum um Breiðafjörð a.m.k. í núverandi mynd sýnist mætti spara allt að 300 til 400 milljónir í árlegar niðurgreiðslur.  Ef gert er ráð fyrir að helmingur þeirrar fjárhæðar eða um 150 til 200 m.kr.  gengju til árlegrar niðurgreiðslu á kostnaði við gerð ganga undir Klettsháls og aðrar ca. 150 m.kr. greiddust með veggjöldum, sýnist vel mætti ráðast í gerð þeirra í einkaframkvæmd þannig að þörf fyrir ferju hyrfi að mestu.“

Sýnist þetta vel skoðunarvert og megi gera ráð fyrir að Samgöngufélagið hlutist til um einhverja könnun á því.

DEILA