Ferðafélag Ísfirðinga : Þorfinnur í Önundarfirði á laugardaginn – 2 skór

Þorfinnur       2 skór

Laugardaginn 12. ágúst

Mæting kl. 9 við Bónus á Ísafirði og kl. 9.30 við afleggjarann að Grafargili í Valþjófsdal

Önundarfjörður er umlukin fögrum fjallagarði og ber þar hæst fjallið Þorfinnur en það hefur löngum verið eitt helsta kennileiti byggðarinnar við fjörðinn. Fjallið er nær 700 metra hátt. Tveir sæmilega gangfærir þræðingar eru í háfjallinu. Sá efri er alveg upp undir brún og heitir Töflugangur. Hann endar á svokölluðum Veturlöndum, sem eru upp af bænum Grafargili. Neðri þræðingurinn heitir Gangur og endar á Hærri-Fuglahjalla, yst í Geldingadal í landi Grafargils.

Það er gömul þjóðtrú að uppi á fjallinu eigi að vera falin kista, full af gulli og gersemum. Sá sem ætlar sér að ná í gullið verður þá að ganga upp á fjallið án þess að líta til baka á leiðinni. Takist honum að hitta  á réttu stundina má hann taka eins mikið gull og hann getur borið. En til að koma gullinu í verð má hann heldur ekki líta um öxl á leiðinni niður fjallið því að ef hann gerir það breytist gullið í grjót. Í Vestfirskum sögnum segir reyndar að Þorfinnur sá er bjó að Þorfinnstöðum hafi látið gullkistu sína upp á fjallshnúkinn Þorfinn sem er fyrir ofan Þorfinnsstaði. Hann hafi síðan mælt svo um að enginn skyldi geta opnað hana nema sá sem bæri nafn sitt og væri alinn upp í heiðni. Sveinn nokkur var síðar látinn heita Þorfinnur og alinn upp án þess að vera sagt til um Guð  í uppvextinum. Þegar hann var kominn á unglingsár fór hann upp á fjallið til að freista þess að opna kistuna. Honum gekk illa við það og að lokum fór það svo að hann bað guð um að hjálpa sér. Við það á kistan að hafa breyst í klett þann sem þar stendur enn.

Það má vel vera að kistan sé enn geymd á fjallinu og því forvitnilegt að sjá hvað göngufólk kemur með til baka úr gönguferðinni að þessu sinni. Það fær þó a.m.k. í sinn hlut að taka þátt í göngunni í góðum félagsskap og njóta víðáttumikils útsýnis yfir Önundarfjörð þegar á toppinn er komið hvað sem öðru líður. Það eru heilmikil verðmæti fólgin í því. 😏

Ljósmynd: Ómar Smári Kristinsson

Heimildir:

  1. Kjartan Ólafsson. (1999). Árbók Ferðafélag Íslands – Firðir og fólk 900 – 1900.  Ferðafélag Íslands.
  2. Vestf. sagnir II, 87. Sbr. þar bls. 327-328.
DEILA