Súðavík: fagnar samgönguáætlun en vill Álftafjarðargöng fyrr

Frá grjóthruni á Súðavíkurhlíðinni Myndir aðsendar.

Í umsögn Súðavíkurhrepps um drög að samgönguáætlun 2024-38 er lögð áhersla á nauðsyn góðra samganga á landi við Ísafjörð þar sem nær öll þjónusta er staðsett, svo sem heilbrigðisþjónustua og almannavarnir. Einnig að um er að ræða eitt atvinnusvæði þar sem erfiðar vetrarsamgöngur hafa atvinnulífi staðarins fyrir þrifum. Uppbygging fiskeldis á svæðinu muni auka verulega umferð og knýja á um öruggar samgöngur innan svæðis og út af því.

Álftafjarðargöng fyrr – fleiri göng unnin samhliða

Því er fagnað að Álftafjarðargöng eru komin á jarðgangaáætlun og minnt á að þau hafa verið lengur á áætlun en flestar þær framkvæmdir aðrar sem lagðar eru til. Mikilvægt er „fyrir byggðarlagið Súðavíkurhrepp og norðanverða Vestfirði alla að þau göng hefðu staðið þar framar í röð þeirra kosta sem upp eru taldir.“ segir í umsögninni.

„Þó er í sjálfu sér ekkert við það að athuga ef hratt og örugglega verður ráðist í þá áætlun sem fram er lögð, en takmarkanir eiga ekki að liggja í einum jarðgangakostum í einu – ekkert er því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir einhverra kosta samhliða.“

vilja undirbúningsframkvæmdir strax

Þá segir að mikilvægt hefði verið að sjá þess stað „að alvara væri í jarðgangaáætlun að leggja af veg um Súðavíkur- og Kirkjubólshlíð með undirbúningsframkvæmdum og ekki síður skoðun á tvöföldun jarðganga um Breiðadals- og Botnsheiði, fyrst það er vilji þeirra sem að áætluninni standa. Og að setja þau verkefni samhliða í framkvæmd. Er það vel þar sem líkast til yrði farsælt að stilla þeim kostum upp samhliða vegna nálægðar og tækifæra til samnýtingar tækjakosta og mannskaps.“ Þá er talið brýnt að bæta úr ástandi í Vestfjarðagöngum vegna mikillar umferðar.

Þá segir í umsögninni að brýnt sé að styrkja símasamband í Djúpinu og minnt á alvarleg slys sem nýlega urðu. Vikið er að framkvæmdum annars staðar á Vestfjörðum og segir að tafir eða frestun á vegagerð um Veiðileysuháls í Árneshreppi séu í raun loforð sem búið er að brjóta og ekki til sæmdar í stórhuga áætlun. Súðavíkurhreppur vísar til athugasemda Vestfjarðastofu og tekur að mestu leyti undir þær svo og umsagnar Ísafjarðarbæjar.

DEILA