Lengjudeildin: Vestri gerði jafntefli í Grindavík

Benedikt Warén skorar mark Vestra í gær.

Vestri og Grindavík gerðu jafntefli í Lengjudeildinni í gær þegar liðin mættust í Grindavík. Benedikt V. Warén kom Vestra yfir skömmu fyrir leikhlé með bylmingsskoti fyrir utan vítateig. Grindvíkingar fengu vítaspyrnu í síðari hálfleik og jöfnuðu úr henni. Heilt yfir voru Vestramenn heldur sterkari aðilinn.

Vestri er áfram í 6. sæti deildarinnar eftir leikinn með 20 stig, jafnmörg og Grótta sem er í 5. sæti en Grótta hefur einu marki betri markamismun. Leiknir í Breiðholti er í 4. sæti með 23 stig eftir sigur á ÍA en hefur leikið leik meira en Vestri og Grótta.

Afturelding er sem fyrr langefst með 36 stig. Liðin í 2. – 5. sæti spila sérkeppni um eitt laust sæti í Bestu deildinni og er Vestri komið í harða keppni um sæti í þeirri keppni.

DEILA