Arnarstofninn: fjórðungur óðala á Vestfjörðum

Haförn. Mynd: Sindri Skúlason.

Í Barðastrandasýslum, Ísafjarðarsýslum og Strandasýslu eru nú 24 arnaróðul í ábúð, af þeim 92 sem þekkt eru á landinu eða ríflega fjórðungur. Meirihluti þeirra er í Breiðafjarðarhluta Barðastrandarsýslna segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í svari við fyrirspurn Bæjarins besta.

Á þessu svæði eru auk þess þekkt um 27 forn arnaróðul og hafa amk 11 þeirra verið í ábúð í einhver ár á síðustu 100 árum en frá þeim tíma eru nokkuð góðar upplýsingar um ábúð á flestum óðulum.

Kristinn Haukur sagði í viðtali við Morgunblaðið á þriðjudaginn að varpið hafi verið með betra móti í ár, 43 pör komu upp 56 ungum sem eru að verða fleygir eftir um hálfan mánuð. Hann sagði ennfremur að stofninn hefði ekki verið stærri í langan tíma. Örninn hefur verið friðaður síðan 1914.

Arnarstofninn er ennþá bundinn við vestanvert landið, frá Faxaflóa til Vestfjarða og yfir í Húnaflóa.

Þetta er að sögn Kristins Hauks einangraður stofn sem hefur engin samskipti við aðra arnarstofna nú á tímum. Ernir forðast að fljúga yfir höf til nálægra landa.

DEILA