Lýðskólinn Flateyri: skólasetning 9. sepember

Nýtt húsnæði nemendagarða á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lýðskólinn á Flateyri verður settur 9. september næstkomandi og skólaslit verða 4. maí 2024. Nemendum stendur til boða húsnæði á vegum skólans. Meðal annars í nýbyggðum nemendagörðum með 14 stúdíóíbúðum þar sem hvert herbergi er með sérbaðherbergi og litlum eldhúskrók. Nemendur við Lýðskólann á Flateyri greiða skólagjöld sem eru 350 þúsund krónur fyrir hvora önn. Innifalið í skólagjöldum er morgunmatur alla virka skóladaga, námsefni og ferðir og verkefni sem tengjast vinnu og verkefnum við skólann.

Í kynningu á náminu segir: „Lýðskólinn á Flateyri býður þér tækifæri til að þroskast og læra í nánu samstarfi við aðra nemendur og íbúa á Flateyri. Þú kynnist nýjum hliðum á þér og hefur tíma til að átta þig á styrkleikum þínum og reyna þig í aðstæðum og verkefnum sem þér hafði ekki dottið í hug að reyna við.

Í námi þar sem nemendur eru saman 24 tíma á sólarhring, líkt og iðulega er í lýðskóla, eru samtöl og samvera samofin námi og verkefnavinnu sem gefur nemendum færi á að prófa sig áfram í allsskonar og taka upplýsta ákvörðun um frekara val á námi eða stefnu í lífinu.“

DEILA