Tekjur íslenskra sveitarfélaga jukust um 8% milli áranna 2015 og 2016 og hefur tekjuvöxtur samstæðu sveitarfélaganna ekki verið eins hraður frá árinu 2007 þegar hann var 11%.
Þetta kemur fram í nýrri sveitarfélagaskýrslu Íslandsbanka.
Tekjur vegna A-hluta jukust um 10% en tekjur B-hluta jukust um 3%. Gjöld A- og B-hluta jukust um 0,2% en launakostnaður er stærsti kostnaðarliður sveitarfélaganna.
Þar sem tekjur jukust hlutfallslega meira en gjöld batnaði rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagns- og óreglulega liði og hækkaði úr tæpum 18 milljörðum króna í rúma 45 milljarða króna, eða um 152%. Viðsnúningurinn felst að mestu leyti í rekstri A-hlutans sem var neikvæður árið 2015 um 8,6 milljarða en jákvæður um 18,2 milljarða árið 2016.
Elvar Orri Hreinsson, skýrsluhöfundur og sérfræðingur greiningar Íslandsbanka segir ánægjulegt að sjá rekstrarniðurstöðu íslenskra sveitarfélaga batna til muna. „Skuldsetning sveitarfélaganna hefur lækkað nokkuð stöðugt frá árinu 2009 sem hefur skapað svigrúm fyrir frekari innviðafjárfestingu. Kjarasamningar og auknar lífeyrisskuldbindingar hafa undanfarið haft neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna en þau áhrif voru umtalsvert minni á árinu 2016. Það er gott og gagnlegt fyrir Íslandsbanka líkt og almenning að fylgjast með þróun á stöðu íslenskra sveitarfélaga,” er haft eftir Elvari í fréttatilkynningu frá Íslandsbanka.