Samgönguáætlun: Strandamenn mótmæla frestun á nýjum veg um Veiðileysuháls

Í drögum að samgönguáætlun fyrir árin 2024 – 2038, sem er í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og umsagnar, er lagt til að nýr vegur um Veiðileysiháls í Reykjarfirði, norður í Trékyllisvík, verði lagður á árunum 2029 – 33 í stað þessa að hefja verkið á næsta ári eins og kveðið er á um í núgildandi samgönguáætlun.

Þessari frestun er harðlega mótmælt í umsögn Árneshrepps.

Í umsögninni segir: „Veiðileysuháls er einn helsti farartálmi í samgöngum til og frá Árneshreppi. Vegurinn er gamall og barn síns tíma. Hann var lagður um 1965 og lokast ævinlega strax í fyrstu snjóum hvert haust. Hann þolir illa umferð flutningabíla á borð við fiskflutninga úr Norðurfjarðarhöfn.“ Vegurinn er um 12 km langur. Rakin er saga sveitarstjórnar allt frá árinu 1986 þar sem barist er fyrir vegabótunum og niðurstaðan hafi ávallt orðið að framkvæmdirnar bíði seinni tíma. Oddviti hreppsnefndar segir í lokaorðum umsagnarinnar: „Í nafni réttlætis og jafnréttis skora ég hér með á þingheim að standa sig gagnvart einum af sínum minnstu og fjarlæga bróður og koma í veg fyrir að Veiðileysuháls verði eina ferðina enn látinn bíða seinni tíma. Fyrir mörg okkar er seinni tíminn þegar runninn upp og okkar bjartsýnustu vonir farnar að myrkvast.“

Verkefnisstjórnin áfram Árneshreppur sendir einnig inn umsögn og segir að endalausar frestanir á þessari framkvæmd hafi veruleg neikvæð áhrif á sálarlíf íbúa og stemminguna í samfélaginu. Það sé bagalegt þar sem stemmingin hafi verið góð í kringum Árneshrepp með eflingu innviða á undanförnum árum. Tekist hafi að snúa neikvæðri íbúaþróun við og íbúum hefur fjölgað talsvert upp á síðkastið.

„Við erum í kapphlaupi við tímann. Árneshreppur er og verður brothætt byggð, þar sem hver einstakur íbúi skiptir máli. Hvert ár sem líður án þess að farið sé í vegbætur á Veiðileysuhálsi rýrir möguleika Árneshrepps sem valkosts til búsetu.“

Verkefnisstjórn Áfram Árneshrepps leggur til að Strandavegur um Veiðileysuháls verði færður framar á samgönguáætlun og að framkvæmdir hefjist strax á árinu 2024.

DEILA