Látrabjarg

Látrabjarg er þverskurður af hraunlagastafla Vestfjarðasléttunnar sem hlóðst upp fyrir um 13-14 milljónum ára. Þetta eru elstu jarðlög Íslands. Hörðu hraunlögin eru blágrýti, allt að 9-12 metrar að þykkt en smáu rauðleitu millilögin eru mýkri, sennilega gamall jarðvegur sem hraun rann yfir og bakaði.

Í bjarginu sést vel hvernig hraunlögin hafa hlaðist hvert yfir annað í síendurteknum eldgosum. Oft hefur liðið svo langur tími á milli að landið hefur náð að græða sár sín. Miðlandahilla sker sig úr, er breiðust og nær eftir endilöngu bjarginu.

Við rætur Látrabjargs hafa sums staðar safnast miklar urðir. Stærst þeirra er Stóraurð. Annars staðar hefur sjógangur eytt urðunum sem myndast hafa þegar bjargið hrynur. Brimið grefur stöðugt undan bjarginu og myndar þar stóra bása og katla, sumir hverjir eru allt að tveggja mannhæða djúpir.

Úti fyrir Látrabjargi eru klappir þar sem útselir koma sér makindalega fyrir og úti við sjóndeildarhringinn má stundum sjá hvali.


Í daglegu tali er Látrabjargi skipt í fjóra hluta og stafar sú skipting fremur af ítökum bæja í nágrenninu en af náttúrulegum orsökum. Þó er austasti hlutinn, Keflavíkurbjarg, nær slitinn frá aðalbjarginu. Hinir hlutarnir þrír nefnast Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg.


Látrabjarg iðar allt af fugli framan af sumri, hver snös og stallur er setinn svo sem raðað sé á jötu – ævintýraheimur sem ekki verður með orðum lýst. Slíkur blettur mun varla finnast annars staðar.

Þarna verpa einkum álka, langvía, svartfugl, stuttnefja, rita, lundi og fýll. Stærsta álkubyggð í heimi er í Stóruurð. Fuglarnir verpa í nánu sambýli í björgunum, en þó eru ein eða tvær tegundir ríkjandi í hverjum bjarghluta.

Mörg öfl sameinast um að gera Látrabjarg að paradís fuglanna. Hafið er mikilvægast, það heldur standberginu við og hrúgar upp urðinni. Í samspili harðra hraunlaga, mýkri millilaga og ágangs vatns og vinda hafa orðið til kjöraðstæður fyrir fuglanna – syllur, stallar og hillur.

Af vefsafn.is

DEILA