Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um ógildingu á starfsleyfi Háafells ehf. fyrir 6.800 tonna eldi á regnbogasilungi er vikið að fjárlægð sjókvía frá ósum laxveiðiáa. Nánar tiltekið frá sameiginlegum ósi Hvannadals- og Langadalsár. Í reglugerð er kveðið á um fjarlægð frá sjókvíum að ósum laxveiðiáa og eiga kvíar vera í 5 km fjarlægð frá árósum þar sem meðalveiði síðustu 10 ára er yfir 100 fiskum og kvíar mega ekki vera nær en 15 km frá árósum áa með meira en 500 fiska meðalveiði.
Þar sem Hvannadalsá og Langadalsá hafa sameiginlegt ósasvæði telur úrskurðarnefndin að miða skuli við samanlagða veiði beggja áa. Samkvæmt skýrslu Veiðimálastofnunar var meðalveiðin í báðum ám 503 fiskar á árunum 2005-2015.
Í málsrökum Umhverfisstofnunar þegar málið var kært til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að ekki sé rétt að miða við sameiginlega meðalveiði í ánum. Stofnunin vísar til skilgreininga í lögum á ósum og ám. Í lögum um lax- og silungsveiði segi að á sé straumvatn frá ósasvæði til upptaka. Ós í sjó sé sá staður þar sem straumur ár hverfi í sjó um stórstraumsfjöru og að ósasvæði sé svæði í straumvatni er nái frá ósi í sjó upp til þess staðar þar sem straumlína hverfi um stórstraumsflæði.
Umhverfisstofnun miðar við að Hvannadalsá og Langadalsá séu tvær ár. Þótt þær hafi sama ósasvæði séu þær tvö mismunandi straumvötn frá ósi til upptaka ánna. Því telur stofninin ekki rétt að miða við samanlagða meðalveiði, eins haldið er fram í kæru og úrskurðarnefndin féllst á, heldur verði að miða við meðalveiði í sitthvorri ánni.
Þegar Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi var vísað til þess að í báðum ám tíðkist að veiða og sleppa fiska og stofnunin telur að fjöldi fiska sem veiðimenn sleppa í hvorri á fyrir sig sé að minnstka kosti 0-160 fiskar og meðalfjöldi veiddra fiska í Langadalsá og Hvannadalsá sé þar af leiðandi undir 500 fiskum síðastliðin 10 ár.
Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi rök. Í úrskurðarorðum segir að í lögum um fiskeldi komi ekki fram skilgreining á veiddum fiski, en nefndin telur að eðli máls samkvæmt telst sá fiskur veiddur sem sleppt er og að ekki verði séð að staðhæfing Umhverfisstofnunar sé rökrétt miðað við gefnar forsendur.
Í tilkynningu frá Háafelli segir að úrskurðurinn ætti ekki að hafa áhrif á áform fyrirtækisins um laxeldi í Ísafjaðrardjúpi og að úrskurðinn ætti að veita Umhverfisstofnu færi á því að fara vel yfir sína ferla og bæta úr þeim og að málið sé fyrst og fremst stjórnsýslulegs eðlis.
Eins og áður er vikið að snýr úrskurðurinn að starfsleyfi fyrir eldi á regnbogasilungi. Háafell hefur ákveðið að snúa sér að laxeldi í stað eldis á regnbogasilungi og er umhverfismat fyrir laxeldið á lokametrunum. Staðsetningar laxeldiskvíanna verða á að mestu á sömu svæðum og fyrirtækið ráðgerði sjókvíar fyrir regnbogasilung. Hluti sjókvíanna er innan við 15 km frá ós Hvannadals- og Langadalsár og því ljóst miðað við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að þær staðsetningar koma ekki til greina nema með reglugerðarbreytingu. Einnig væri hægt að skjóta úrskurðinum til dómstóla þar sem tekist yrði á um spurninguna hvort að veiða/sleppa sé raunveruleg veiði.