Ísafjörður: áningarstaður á fyrirstöðugarði við Norðurtanga

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs hefur lagt til að haldin verði samkeppni um hugmyndir og hönnun að áningarstað á enda fyrirstöðugarðs við Norðurtanga. Keppnin verði haldin öðru hvoru megin við áramótin næstu og gert ráð fyrir keppninni og framkvæmdum í fjárhagsáætlunargerð fyrir 2024 og 2025.

Bæjarráð tók vel í hugmyndina og óskar umsagna frá menningarmálanefnd, umhverfis- og framkvæmdanefnd, skipulags- og mannvirkjanefnd og hafnarstjórn. Í kjölfar þess myndi bæjarstjóri útfæra hugmyndasamkeppni og leggja fram áætlun um kostnað, forsendur, tímasetningar og önnur skipulagsatriði fyrir bæjarráð.

Tillagan var lögð fram í kjölfar þess að bæjarráð hefur heimilað útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir fyrirstöðugarð við Norðurtanga á Ísafirði.

Er garðinum ætlað að hefta sandburð inn í sundin, en við norðurenda eyrarinnar hefur á síðustu árum myndast sandfjara sem farin er að skríða innar. Í greinargerð með tillögunni segir að á síðustu árum hafi verið opnaðir göngustígar sem liggja frá höfninni (við Kampa) meðfram sjónum við Sundstræti og Fjarðarstræti upp í Krók, til móts við Túngötu. Þessir stígar hafi verið afar vinsælir meðal heimafólks og ferðamanna.

Fyrirstöðugarðurinn muni koma á miðja þessa leið og setja svip á umhverfið. Þaðan verður útsýni til allra átta. Það sé því upplagt að setja áningarstað á enda garðsins. Þar megi hugsa sér listaverk eða minnismerki auk bekkja eða annarra götugagna. Skoða megi hvort aðgengi að fjörunni megi tvinna við áningarstaðinn, eftir atvikum í tengslum við sjósund.

Huga þurfi að lýsingu, aðgengi, reglum um siglingaljós og sjónræn áhrif á næstu nágranna í Fjarðarstræti 2–6.

Þar sem staðurinn er hluti af varnarvirki fyrir höfnina er gert ráð fyrir að kostnaður verði greiddur úr hafnarsjóði, segir í greinargerðinni.

DEILA