Veðurstofa Íslands bendir á í umsögn sinni um skipulagslýsingu fyrir miðbæ Isafjarðar, deiliskipulag að landsig á Ísafirði sé tæplega 2 mm á ári og gera verði ráð fyrir 65 cm hækkun sjávar við lok 21. aldar. Sjávaryfirborðshækkun muni halda áfram öldum saman og því er eðlilegt að í deiliskipulagi sé því lýst hvernig koma eigi við sjóvörnum þegar þess gerist þörf.
Alls bárust umsagnir frá 12 aðilum en engar athugasemdir.
Deiliskipulagssvæðið tekur til miðbæjar Ísafjarðar og er tæpir 14 ha að stærð, sjá Mynd 1. Skipulagssvæðið tekur til Hafnarstrætis frá Eyrartúni að Silfurtorgi, Aðalstrætis frá Silfurtorgi að Mjósundi, Pollgötu og Suðurgötu að Njarðarsundi auk þvergatna innan reitsins. Afmörkun svæðisins til austurs miðast við mörk lóða við Hafnarstræti og Aðalstræti. Mörk svæðisins til vesturs liggja um Pollinn.
Skipulagssvæðið tekur til hluta svæðis sem er skilgreint sem miðsvæði M4 í gildandi aðalskipulagi og iðnaðarsvæðis I36 (bensínstöð). Svæðið tekur einnig til hluta svæðis fyrir þjónustustofnanir Þ13 (bílastæði við kirkju), hluta
íbúðarsvæðis Í5 og hluta hafnarsvæðis K11. Stærstur hluti skipulagssvæðisins nýtur einnig hverfisverndar H8 skv. gildandi aðalskipulagi.
Í skipulagslýsingu segir að hvati deiliskipulagsgerðarinnar séu áform bæjarstjórnar um að efla miðbæ Ísafjarðar með verkefninu Nýsköpunarbærinn Ísafjörður. Liður í verkefninu er að bæta ásýnd miðbæjarins og hófst vinna við endurhönnun hans í ársbyrjun 2021. Tillaga að breytingum í Aðalstræti, frá Silfurtorgi að Edinborg, lá fyrir í maí sama ár
en hún kallar á endurskoðun gildandi deiliskipulags miðbæjarins. Einnig er nokkur eftirspurn eftir lóðum til uppbyggingar íbúða og þjónustu á Eyrinni á Ísafirði og er nýju deiliskipulagi ætlað að móta stefnu um frekari
uppbyggingu í miðbæ Ísafjarðar.
Í umsögn slökkviliðs Ísafjarðarbæjar er lagt til að Pollgatan verði breikkuð , færa bensínstöðina og byggja ibúðir á lóðinni. Hafnarstræti frá Austurvegi að Silfurtogi verði gert að göngugötu og byggð þétt á lausum lóðum
Umhverfisstofnun minnir á vatnaáætlun og fráveitu. Vegna losunar á óhreinsuðu skólpi sé vatnshlotið Skutulsfjörður innri í óvissu. Sveitarfélagið skuli tryggja að gerðar verði mælingar og vöktun framkvæmd í vatnshlotinu til að skera
úr um ástand þess. Að auki skal sveitarfélagið draga úr álagi á vatnshlotið sem felst í losun á óhreinsuðu skólpi.
Varðandi fráveitumálin þá þurfi að vera umfjöllun um að afleggja eigi útrásirnar á umræddu skipulagssvæði þrátt fyrir að sveitarfélagið sé að vinna að slíkum fyrirætlunum. Auk þess bendir stofnunin á að það skortir á umfjöllun um hreinsun á skólpi en þéttbýlið uppfyllir ekki kröfur um hreinsun skv. reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.
Skipulagsstofnun mælir með því að uppfæra húsakönnun á svæðinu og minnir stofnunin á mikilvægi samráðs þegar unnið er að skipulagi í gróinni byggð og að tryggt sé að íbúar og aðrir hagsmunaaðilar á svæðinu hafi möguleika á aðkomu að skipulagsferlinu og að koma hugmyndum og ábendingum á framfæri.
Málið er til meðferðar í skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar.