MERKIR ÍSLENDINGAR – KARVEL PÁLMASON

Karvel Pálmason (Karvel Steindór Ingimar) fæddist í Bolungarvík  þann 13. júlí 1936. Foreldrar hans voru Pálmi Árni Karvelsson sjómaður þar í bæ og Jónína Eggertína Jóelsdóttir ráðskona.

Karvel stundaði fjölbreytt störf í Bolungarvík á árunum 1950-1971. Sjómaður 1950–1958 og síðan verkamaður til 1962. Lögregluþjónn 1962–1971 og jafnframt kennari við barna- og unglingaskólann þar.

Hann var kjörinn á Alþingi árið 1971 fyrir Frjálslynda vinstrimenn. Hann sat á þingi til ársins 1991. Hann var formaður þingflokks Samtaka frjálslyndra og vinstri manna á árunum 1974-1978.

Karvel var formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur um árabil, varaforseti Alþýðusambands Vestfjarða, sat í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og var um tíma varaformaður Verkamannasambands Íslands.

Karvel sat í hreppsnefnd Hólshrepps á árunum 1962-1970, í Rannsóknaráði ríkisins árin 1971-1978 og í stjórn Fiskimálasjóðs frá 1972- 1989. Hann átti sæti í stjórn Byggðastofnunar á árunum 1991-1995 og sat í flugráði um tíma.

Eftirlifandi eiginkona Karvels er Martha Kristín Sveinbjörnsdóttir f. 27. ágúst 1935. Foreldrar hennar Sveinbjörn Rögnvaldsson og kona hans Kristín Hálfdánardóttir.


Karvel og Martha eignuðust fjögur börn:


Pálmi Árni (1952), Kristín Hálfdánar (1953), Steindór (1958), Jónína (1960).

Karvel Pálmason var vaskur maður, jafnan glaður og reifur, og gamansamur í samskiptum við samstarfsfólk. Hann reyndist dugmikill þingmaður og ræktaði gott samband við kjósendur sína. Mest beitti hann sér í sjávarútvegsmálum, samgöngumálum og byggðamálum, og öðrum þeim málum sem vörðuðu hag þess kjördæmis þar sem hann var kosinn. Hann gekk þegar í upphafi þingmennsku sinnar ódeigur til starfa þótt hann hafi ekki stefnt þangað sem ungur maður eða átt sér á þeim tíma drauma um frama í stjórnmálum. Það varð hans hlutskipti eigi að síður og undir því reis hann með sóma.

Er Karvel var um fimmtugt veiktist hann og gekkst undir mikla skurðaðgerð en náði aldrei fullri heilsu á ný. Er hann lét af þingmennsku 1991 hvarf hann á ný á heimaslóðir sínar í Bolungarvík. Hann sinnti áfram opinberum málum, var m.a. í stjórn Byggðastofnunar í fjögur ár og enn fremur um alllangt skeið í flugráði. Að öðru leyti fékkst hann við smíðar, enda hagleiksmaður í þeim efnum. Naut hann þess að hafa hjá sér í „Kallastofu“ vini sína og samferðarmenn til að ræða um landsins gagn og nauðsynjar og glettast við þá.

Karvel Pálmason lést þann 23. febrúar 2011.

Karvel Pálmason í pontu á frægum framboðsfundi á Þingeyri.

Vestfirskir jafnaðarmenn funda framan við Kallastofu í Bolungarvík fyrir 30 árum.
F.v.: Fríða Jónsdóttir, Hendrik Óli Tausen (1944-2023), Daði Guðmundsson, Björn Ingi Bjarnason,

Karvel Pálmason (1936 – 2011) og Martha Kristín Sveinbjörnsdóttir.
Ljósm.: Jóna Guðrún Haraldsdóttir.



Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA