Bastilludagurinn – þjóðhátíðardagur Frakka er 14. júlí
Af því tilefni býður Franski konsúllinn á Ísafirði Frökkum og áhugafólki um franska menningu til móttöku föstudaginn 14. júlí á þjóðhátíðardegi Frakklands.
Tengslin við Frakkland eiga sér langa sögu. Víða um Vestfirði má finna minjar um tengsl Frakka og Íslendinga. Franskir sjómenn voru við veiðar við stendur landsins um aldir og margar sögur til af viðskiptum þeirra við Vestfirðinga. Í Dýrafirði má finna fallega varðveittan grafreit franskra sjómanna og í Patreksfirði eru mörg minni um veru þeirra þar.
Undanfarin ár hefur frönskum skútum fjölgað mjög í Ísafjarðarhöfn, sumar í stuttu stoppi á leið til Grænlands en aðrar dvelja lengur.
Fyrir fimm árum hóf Franska kvikmyndahátíðin göngu sína í Ísafjarðarbíói, og verður næst haldin í byrjun árs 2024.
Franskir og frönskumælandi nemendur við Háskólasetur Vestfjarða hafa verið allnokkrir undanfarin ár og franskir vísindamenn og nemendur vinna að ýmsum verkefnum á svæðinu.
Franskir listamenn koma reglulega til gestavinnustofudvalar hjá ArtsIceland á Ísafirði og öll þekkjum við til franskrar vín- og matarmenningar.
Fransmenn, frönskumælandi og annað áhugafólk um franska menningu er velkomið að koma og blanda geði á Bastilludeginum í Gallerí Úthverfu, Aðalstræti 22 á Ísafirði kl. 17 :00 – 18 :30.