MERKIR ÍSLENDINGAR – HJÁLMAR FINNSSON

Hjálmar fæddist á Hvilft í Önundarfirði þann 15. janúar 1915.

Foreldrar hans voru Finnur Finnsson, bóndi á Hvilft, og Guðlaug J. Sveinsdóttir.


Finnur var sonur Finns, bónda þar Magnússonar, b. þar Einarssonar (og helsta stuðningsmanns Jóns Sigurðssonar við kosningarnar til hins endurreista Alþingis 1845), bróður Ásgeirs, alþm. á Þingeyrum, og Torfa, alþm. á Kleifum, en systir Magnúsar var Ragnheiður, amma Torfa tollstjóra og Snorra skálds Hjartarsona.

Guðlaug Jakobína var dóttir Sveins Rósinkranzsonar, skipstjóra á Hvilft, bróður Rósinkranz, föður Guðlaugs þjóðleikhússstjóra, en systir Sveins var Kristín, amma Kristjáns Ragnarssonar, fyrrv. framkvæmdastjóra LÍÚ.

Meðal systkina Hjálmars voru;

Ragnheiður skólastjóri, Sveinn, framkvæmdastjóri Fiskimálasjóðs; og Gunnlaugur, alþm. á Hvilft.

Eiginkona Hjálmars var Doris Finnsson, f. Walker, sem lést 1992, hjúkrunarfræðingur, og eignuðust þau þrjú börn.

Hjálmar lauk stúdentsprófi frá MA 1938, viðskiptafræðiprófi frá HÍ 1941 og stundaði framhaldsnám í fyrirtækjastjórnun við University of Southern California 1941-42.

Hjálmar stofnaði viðskiptafyrirtæki í New York 1942, var umboðsmaður íslenskra verslunar- og iðnfyrirtækja við innkaup í Bandaríkjunum 1942-48, var framkvæmdastjóri fyrirtækis í New York 1945-48 og umboðsmaður Loftleiða hf. í Bandaríkjunum, m.a. við öflun varanlegs lendingarleyfis 1947-48.

Hjálmar var framkvæmdastjóri Loftleiða hf. í Reykjavík 1949-52. Þá kom mjög til álita að sameina Loftleiðir og Flugfélag Íslands og að Hjálmar yrði forstjóri hins nýja flugfélags. Hann var forstjóri Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi 1952-85, sat í Flugráði, í samninganefnd um flugleyfi til Evrópulanda og var m.a. formaður Félags viðskiptafræðinga.

Hjálmar var fróður maður, hressilegur í viðmóti og skemmtilegur viðmælandi. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu.

Hjálmar Finnsson lést þann 10. júlí 2004.


 

Félagskaup á Flateyri. Hjálmar Finnsson að versla. Systurnar; Helga Ósk Eggertsdóttir og Kristín Ágústdóttir við afgreiðslu.



Skráð af Meningar-Bakki.

DEILA