Hið árlega Ögurball verður haldið í Ögri við Ísafjarðardjúp laugardaginn 22. júlí nk. Aðgöngumiða fylgir tjaldstæði, aðgangur að sveitaballinu frábæra og heimagerður rabarbaragrautur með rjóma sem gott er að gæða sér á milli dansspora.
Ögurhátíðin byrjar með skötuveislu sem í hádeginu á föstudaginn 21. júlí. Um kvöldið verður barsvar „pubquiz“. Á laugardagsmorgun verður söguganga um svæðið sem endar með messu í Ögurkirkju. Ögurballið sjálft fer svo fram um kvöldið þar sem Hljómsveitin Fagranes mun spila fyrir dansi og taka við af stuðbandinu Halli og Þórunn, en þau spiluðu fyrir dansi í 23 ár.
Ögurball hefur verið haldið síðan Ungmennafélagshúsið var byggt í Ögri 1926, ballið datt niður um hríð en hefur verið haldið ár hvert af Ögursystkinunum síðan 1999 og nú er næsta kynslóð að taka við. Rukkað er inn í hliðinu á Ögri og óþarfi að panta fyrirfram, nóg af tjaldstæðum og tilvalið að skella sér í sund í Reykjanesi til að þrífa af sér ferðarykið.
Erpur andlit Ögurballsins
Á hverju ári velja skipuleggjendur Andlit Ögurballsins og í ár er það enginn annar en rapparinn Erpur Eyvindarson sem hefur verið tíður gestur á ballinu og tekið að sér að skemmta þegar hljómsveitin tekur sér pásu.
María Sigríður Halldórsdóttir, ein af skipuleggjendum ballsins segir; „Það er gömul hefð að bjóða rabarbaragraut með rjóma á ballinu. Þegar ballið var fyrst að komast á laggirnar þá var langt að fara á ball, fólk var að koma alls staðar að úr djúpinu og fór fólk ýmist á hestum, gangandi eða sjóleiðina. Þá var tekið upp á því að bjóða upp á rabarbaragraut með rjóma svo fólk kæmist heim án vandræða. Við höldum í hefðina og grautinn geri ég með uppskrift ömmu minnar Maju í Ögri og fáum rjóma frá Erpsstöðum. Þetta er svo ótrúlega skemmtilegt, stórfjölskyldan skipuleggur sumarfríið út frá þessari helgi. Vinir og vandamenn eru farnir að gera það sama og það er svo frábært að sjá sama fólkið ár eftir ár sem maður myndi líklega ekki annars hitta. Þessi helgi er alveg ótrúlega dýrmæt fyrir okkur, fullorðna fólkið og börnin, hún þjappar fjölskyldunni vel saman.“
Ögurballið er einn vinsælasti viðburður sumarsins á Vestfjörðum, myllumerki ballsins er #ogurball og má finna okkur á facebook og instagram.
Hægt er að panta í skötuna í s: 8685906 eða á facebook síðu Ögur Travel.