Nýir eigendur að Kerecis

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis.

Í morgun var tilkynnt um sölu á öllu hlutafé í Kerecis til alþjóðlega lækningavörufyrirtækisins Coloplast. Hluthafar sem hafa yfir að ráða yfir 2/3 af heildarhlutafé félagsins hafa þegar undirritað samninga um kaup og sölu hlutafjárins og búist er við að aðrir hluthafar félagsins gerist aðilar að samningnum á næstu vikum. Coloplast greiðir um 1,2 milljarða bandaríkjadala fyrir allt hlutafé Kerecis, auk viðbótargreiðslu allt að 100 milljóna bandaríkjadala, sem tengist rekstrarárangri félagsins á næstu 12 mánuðum. Heildarupphæðin jafngildir tæpum 180 milljörðum íslenskra króna.

Það eru ein stærstu viðskipti þessarar tegundar í sögu Vestfjarða og reyndar Íslands alls segir í fréttatilkynningu.

Hluthafar Kerecis við söluna eru um 400 talsins. Í þeirra hópi eru m.a. stofnandi félagsins, flestir starfsmenn Kerecis, meðstofnendur, vestfirskir frumkvöðlar og sprotafjárfestar, innlendir og alþjóðlegir fjárfestar. Meðal þeirra síðastnefndu má nefna KIRKBI, eiganda LEGO vörumerkisins, og Emerson Collective.

Kerecis verður rekið sem sjálfstæð eining innan Coloplast en fær aðgang að innviðum og söluneti Coloplast um allan heim. Þannig munu á næstu árum opnast markaðir fyrir vörur Kerecis í yfir 140 löndum, en hingað til hafa tekjurnar að stærstum hluta komið frá sölu í Bandaríkjunum.

Með sölu á fleiri mörkuðum mun eftirspurn aukast og störfum fjölga í hátæknisetri Kerecis á Ísafirði, þar sem vörurnar eru framleiddar úr íslensku þorskroði.

Skipulag fyrirtækisins verður óbreytt og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, heldur áfram sem forstjóri félagsins.

„Minn draumur með stofnun Kerecis var tvíþættur – að þróa aðferðir til að fækka aflimunum og græða sár, samhliða því að efla atvinnuþróun á Vestfjörðum. Hvoru tveggja hefur tekist og þessi samningur er sögulegur, þar sem vestfirskt sprotafyrirtæki er orðið eitt verðmætasta félag Íslandssögunnar. Sáraroðið hefur gert stórkostlegt gagn í Bandaríkjunum og nú munu margfalt fleiri sjúklingar fá tækifæri til að nota vöruna um heim allan, auk þess sem framleiðsluumsvif á Ísafirði aukast. Þannig hefur draumurinn ræst,“ segir Guðmundur Fertram.

Coloplast er alþjóðlegt lækningavörufyrirtæki með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn. Á sviði sárameðhöndlunar hefur fyrirtækið sterka stöðu á mörkuðum í Evrópu og Asíu, þar sem öflugt sölunet hefur tryggt því umtalsverða markaðshlutdeild. Umsvif Coloplast í Bandaríkjunum á sviði sárameðhöndlunar eru hinsvegar hverfandi en þar hefur Kerecis einmitt lagt megináherslu á uppbyggingu á öflugu söluneti. Með kaupunum styrkir því Coloplast umsvif sín í Bandaríkjunum.

Guðmundur Fertram segir að einn af hornsteinum samningsins sé að Kerecis og Coloplast eigi margt sameiginlegt:. „Bæði félögin eru norræn í grunninn og stofnuð til að lækna fólk með erfiða sjúkdóma og auka lífsgæði þess. Við deilum bæði gildum og framtíðarsýn, en vegum hvort annað upp með ólíku vöruframboði og markaðssvæðum. Saman myndum við sterka heild. Ég er afar bjartsýnn á framhaldið.“

DEILA