Sturluhátíðin verður 15. júlí

Nú er að koma að því. Hin árlega Sturluhátíð, sem kennd er við sagnaritarann mikla, Sturlu Þórðarsonar, verður haldinn 15. júlí nk. Hátíðin hefst kl. 13 að Staðarhóli í Saurbæ í Dölum, bæ Sturlu Þorðarsonar, með því að við afhjúpum söguskilti sem Sturlufélagið hefur látið gera. Mjög hefur verið vandað til þessarar framkvæmdar. Sérfrótt fólk hefur ritað texta á skiltin og eru þeir bæði á íslensku og ensku. Listamenn myndskreyttu, myndirnar unnar af mikilli kúnst og var þess gætt að útlitið væri í samræmi við söguskilti sem sett hafa verið upp á þekktum sögustöðum í Dalasýslu.

Að lokinni afhjúpun skiltanna verður  farið í stutta sögugöngu með sérfróðu leiðsögufólki um Staðarhólinn. Þar verður í senn sagt frá fornleifauppgreftri sem þar hefur staðið yfir og varpað ljósi á sögu þessa merka staðar.

Hátíðinni verður síðan fram haldið á Hótel Laugum í Sælingsdal kl. 15 með eftirfarandi dagskrá:

  1. Einar K. Guðfinnsson formaður Sturlufélagsins, setur hátíðina.
  2. Ármann Jakobsson, prófessor: Hverjum augum leit Sturla Þórðarson, vígið á Snorra Sturlusyni?
  3. Vilborg Davíðsdóttir, rithöfundur: Völvur og væringjar 
  4. Torfi Tulinius prófessor: Sturla og sálin. Sýn Sturlu á mannssálina eins og hún birtist í verkum hans.

Soffía Meldal ung söngkona úr Dölunum, flytur löng á milli dagskráratriða.

Aðgangur að hátíðinni er ókeypis og einnig býður Sturlufélagið upp á kaffiveitingar að vanda.

Það er ástæða til að hvetja sem flesta til að koma. Í fyrra var metaðsókn að hátíðinni og mættu um 140 manns. Sturlunga og ævi og verk Sturlu Þórarsonar sagnaritara, eins helsta höfðingja og geranda á Sturlungaöldinni, lifir nefnilega í hugum ótrúlega margra nútímamanna.

Sturlungaöldin er einstæður tími í sögu okkar. Í senn tími ófriðar og mannskæðra bardaga sem ekki verður jafnað til neins annars í sögu okkar. En Sturlungaöldin var líka tími óviðjananlegra sagna og bókmennta og nægir í því sambandi að nefna afrek þeirra frændanna Snorra Sturlusonar og Sturlu Þórðarsonar.

Við í Sturlunefndinni bjóðum ykkur öll velkomin og hlökkum til að sjá ykkur sem flest laugardaginn 15. júlí á Staðarhóli, Saurbæ í Dölum og á Laugum á Sælingsdal.

Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Sturlufélagsins.

DEILA