Meðal fjölmargra dagskrárliða á Bíldudals grænum baunum eru tónleikar í húsgörðum í þorpinu. Alls voru sex slíkir tónleikar við sex íbúðarhús. Á laugardaginn voru tónleikar undir þessu nafni – í túninu heima heima hjá Hannesi og Helgu. Hús þeirra nefnist Birkihlíð og stendur við Dalbraut 7.
Gestir fjölmenntu í garðinn og eins gott að hann er stór og rúmar marga. Sonur þeirra Hannesar og Helgu, Þórarinn Hannesson, tónlistarmaður sem búsettur er á Siglufirði, hóf tónleikana og lék eigin lög og ljóð. Enginn hörgull er á tónlistarfólki á Bíldudal og næstir voru Arnfirðingarnir Pétur Bjarnason og Hannes Bjarnason sem léku á harmóniku og sungu með. Heimamaðurinn Gísli Ægir Ágústsson tók við af þeim með listasöng og síðan færðist tónlistin inn í hús.
Boðið var upp á matarmikla sjávarréttasúpu og fékk hver eins og hann vildi.