Ferðafélag Ísfirðinga: Lokinhamraheiði – 2 skór – Laugardaginn 8. júlí

Fararstjóri: Þórir Örn Guðmundsson

Mæting við Bónus Ísafirði kl. 9 og kl. 9.45 við íþróttamiðstöðina á Þingeyri

Byrjað er á því að ganga fram og upp Lokinhamradal að austanverðu meðfram fjallinu Skeggja sem á þessari leið er oft nefndur Skorarfjall eftir mjög djúpum skorum sem skera sundur tröllaukin hamrabelti fjallsins, enda er þar þurrara undir fæti. Það er frekar bratt upp á Lokinhamraheiðina en heiðin sjálf í um 680 m hæð og örstutt og jafnvel stysta heiði á landinu, ekki nema fimm til sex skref! Síðan strax í bröttum sneiðingum norðaustur og niður í Lambadal og áfram út í Haukadal. Þaðan norður að Húsatúni.

Vegalengd 13,5 km, áætlaður göngutími 5 – 6 tímar, hækkun í um 680 m hæð.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu göngusvæðið er magnað. Lokinhamradalur nær allur hömrum krýndur hið efra og yfir innri hlíð dalsins gnæfir fjallið Skeggi en síðan tekur við Skorarfjall.  Haukadalur með fjalldalinn Lambadal sem teygist í suðvesturátt frá Haukadal. Fyrir botni Haukadals rísa fjöllin í 800-1000 metra hæð og þar í fjalllendinu, suður af dalbotninum, er Kaldbakur, hæsta fjall Vestfjarða. Hátt í hlíðum gnæfir einnig Kolturshorn, 865 metra há fjallsstrýta sem bregður stórum svip yfir umhverfið, sést víða að og er augnayndi á að horfa.

Lokinhamraheiði var talin hestfær að sumarlagi en þó með naumindum og að vetrinum verður hún oft ófær eða nær alveg ófær gangandi mönnum vegna fannfergis og vetrarhörku.

Þátttakendur þurfa að skrá sig á netfang félagsins ferdafelag.isfirdinga@gmail.com fyrir kl. 12:00 föstudaginn 7. júlí.  Þeir þurfa einnig að greiða 4.000 kr. fyrir bílferð frá Haukadal yfir í Lokinhamradal. Það er nú aldeilis vel sloppið. Greiðsluupplýsingar: Ferðafélag Ísfirðinga, Kennitala: 700410-0560, Reikningsnúmer: 0556-26-000451. Senda staðfestingu á greiðslunni á netfang félagsins að greiðslu lokinni. Þátttakendur verða að vera búnir að greiða þátttökugjaldið áður en ferðin hefst.

Myndin er tekin á toppi Lokinhamraheiðar. Hún er hvorki löng né breið en útsýnið er stórkostlegt. Rögnvaldur Þór Óskarsson tók myndina en hún er tekin í einni af ferðum Ferðafélags Ísfirðinga.

DEILA