Háskóli í Bandaríkjunum auglýsir starf á Ísafirði

School for International Training í Vermont, Bandaríkjunum, auglýsir eftir nýjum fagstjóra fyrir misserisnámið sitt á Íslandi. Um er að ræða heilsársstarf og mun viðkomandi starfa hjá Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði.

Háskólasetrið hefur átt samstarf við SIT um sumarnámskeið frá árinu 2008 en árið 2016 bættist misserisnámið við, Climate Change and the Arctic.

Vegna þess koma því árlega tveir hópar, eina önn í senn, til Íslands og dvelja aðallega á Ísafirði.

Störfum sem flytjast á Ísafjörð vegna tilvistar Háskólaseturs Vestfjarða hefur enda fjölgað mikið á síðustu árum. Auk fyrrnefndra stöðugilda fyrir SIT má nefna rannsóknarstöðu Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar sem og rannsóknarfólk sem dvelur hjá Háskólasetri á langtímastyrkjum. Þá eru ótalin þau fjölmörgu sem koma víða að, bæði innanlands og erlendis frá, og dvelja hjá Háskólasetri um skamman tíma.

Hjá Háskólasetri einu og sér eru 7 stöðugildi en þegar talin eru með stöður stundakennara, stöður sem deilast með öðrum stofnunum og stöðugildi þriðja aðila, líkt og SIT, eru stöðugildi Háskólaseturs um 17 hvert almanaksár.

DEILA