Munum þá sem gleyma

Guðjón Brjánsson.

Alþingi fjallaði um mörg mál á nýafstöðnu þingi og nokkur þeirra hlutu samþykki sem lög eða þingsályktanir eða var vikið til hliðar. Þetta 146. þing fer þó fjarri því í sögubækurnar sem árangursríkt og afkastamikið. Sum málanna teljast aðkallandi, brýn og þörf en fengu ekki framgang.

Það sem efst var á forgangslista Samfylkingar voru eins og jafnan áður velferðarmálin, m.a. þau sem lúta að barnafjölskyldum, bættri heilbrigðisþjónustu, húsnæðismálum, sjúkratryggingum, málefnum eldri borgara og hagsmunamálum öryrkja auk annarra mála, s.s. samgöngumála.

Efnahags- og atvinnumál voru einnig ofarlega á málaskrá Samfylkingar á þingtímanum. Dæmi þess er frumvarp um breytingar á lögum um stjórnun fiskveiða sem gengur út á að viðbótarkvóti næsta fiskveiðiárs verði tekinn til hliðar og úthlutað með sérstökum hætti. Markmiðið er að styrkja byggðarlög, kvótalitlar útgerðir og auðvelda nýliðun í greininni. Þessu hafnaði ríkisstjórnin algjörlega og áframhaldandi óréttlæti er viðhaldið.

Fæst mál Samfylkingar fengu brautargengi enda flokkurinn í minnihluta og þingmannafjöldi langt frá því sem er viðunandi. Umskipti í þessum málaflokkum verða því að bíða þar til öðruvísi skipast á löggjafarsamkundunni.

Alltof mikill tími fór í það sem Sjálfstæðisflokkurinn valdi sem sitt forgangsmál en það var brennivínsfrumvarpið svokallaða sem dagaði uppi. Þegar líða fór á þingtímann fóru nefnilega að renna tvær grímur á stjórnarflokkana enda ljóst að ekki var meirihluti fyrir málinu og mikil og útbreidd andstaða í þjóðfélaginu. Þetta eina dekurmál kom hins vegar í veg fyrir að tími gæfist til að klára önnur, t.d. mikilvægt frumvarp til laga um þjónustu við fólk með miklar stuðningsþarfir.

Einu máli sem varðar marga einstaklinga og fjölskyldur þeirra tókst Samfylkingunni þó að þoka í höfn. Á síðustu dögum Alþingis var samþykkt með 63 greiddum atkvæðum þingsályktunartillaga um heildstæða stefnu í málefnum einstaklinga með heilabilun sem undirritaður lagði fram á sínu fyrsta þingi.

Ísland er eitt örfárra Evrópuríkja sem ekki hefur mótað heildstæða stefnu í málefnum fólks með þennan hrörnunarsjúkdóm og eina norræna ríkið. Nefnd innan Evrópusambandsins lagði til á árinu 2016 að Alzheimer-sjúkdómurinn og skyldir sjúkdómar yrðu skilgreindir sem forgangsverkefni í heilbrigðismálum í Evrópu samkvæmt stefnu sem hefði það að markmiði að bregðast við afleiðingum þessara sjúkdóma, og efla rannsóknir sem leitt gætu til markvissra meðferðarlausna.

Heilabilun er afleiðing nokkurra sjúkdóma þar sem Alzheimer-sjúkdómurinn er algengastur og orsakar um 60%–70% heilabilunartilfella, en aðrir sjúkdómar eru t.d. Lewy body heilabilun og æðakölkun. Á núverandi stigi eru engar leiðir til lækninga, en meðferð vegna heilabilunar er veitt með ýmsu móti, t.d. lyfjameðferð við undirliggjandi sjúkdómi, einnig sérhæfðri umönnun og með fræðslu til aðstandenda sem oftast sjá um umönnun innan heimilis. Sálfræðilegur og félagslegur stuðningur er veittur ásamt sérhæfðri hjúkrun og umönnun á seinni stigum.

Skráning einstaklinga með heilabilun er mjög brotakennd á Íslandi og enginn einn aðili getur á áreiðanlegan hátt tilgreint umfang heilabilunarsjúkdóma. Alzheimersamtök Evrópu (Alzheimer Europe) hafa áætlað að einstaklingar með heilabilun á Íslandi séu um 4.000 talsins og byggja útreikninga sína á lýðfræðilegum aðstæðum. Þetta samsvarar um 1,19% af heildarfjölda Íslendinga. Hlutfall íbúa á Íslandi með greinda heilabilun samkvæmt þessu er enn umtalsvert lægra en reiknað meðaltal Evrópusambandslanda, sem er 1,55%.

Um sex milljónir einstaklinga í Evrópu eru greindir með Alzheimer-sjúkdóminn og skylda sjúkdóma á ári hverju og fjölgar stöðugt. Ef horft er til greininga og framtíðarspár frá nágrannalöndum, m.a. frá dönskum og breskum greiningaraðilum, eru líkindi til þess að árið 2040 verði heildarfjöldi einstaklinga með heilabilun sem hlutfall af íslensku þjóðinni komið í 1,2–2,9%. Þetta hlýtur að teljast áhyggjuefni sökum þess hve mikla umönnun þeir þurfa sem hafa langt gengna heilabilun. Íslenska velferðarkerfið er enn sem komið er vanbúið til að takast á við þetta krefjandi verkefni.

Guðjón S. Brjánsson

alþingismaður

DEILA