Ísafjarðarbær tekur á móti allt að 40 flóttamönnum

Arna Lára Jónsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Ísafjarðarbær tekur á móti allt að 40 flóttamönnum samkvæmt samningi sem undirritaður hefur verið af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar.

Þetta er tólfti samningurinn sem gerður hefur verið um samræmda móttöku flóttafólks frá því í nóvember sl. Heildarfjöldi flóttafólks sem samningarnir ná yfir er kominn yfir 3.200.

„Við hjá Ísafjarðarbæ erum afar ánægð með þetta samkomulag og munum kappkosta nú sem endranær að taka vel á móti fólki á flótta og aðstoða þau við að fóta sig í nýjum heimkynnum. Þessi samningur setur skýran ramma um samfellda og fjölbreytta þjónustu við flóttafólk.“ segir Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Tæp 30 ár eru liðin frá því að bærinn tók fyrst á móti fólki á flótti. Þrjátíu manna hópur frá fyrrverandi Júgóslavíu settist þar að árið 1996 og ríflega tuttugu manna hópur kom á norðanverða Vestfirði árið 2018 frá Sýrlandi og Írak. 

DEILA