Grunnskóli Bolungarvíkur er 18. UNESCO-skólinn á Íslandi

Nemendur í Grunnskóla Bolungarvíkur standa hér með viðurkenninguna sem skólinn fékk á dögunum.

Grunnskóli Bolungarvíkur er orðinn UNESCO-skóli. Alls eru því UNESCO-skólar á Íslandi orðnir 18 talsins, einn leikskóli, sjö grunnskólar og tíu framhaldsskólar.

Í Grunnskóli Bolungarvíkur eru um 130 nemendur af þremur þjóðernum. Skólinn hefur verið að vinna að ýmsum málefnum sem falla vel undir UNESCO-skóla, eins og að halda nemendaþing, fara í heimsóknir á Alþingi og vera með jafnréttisáætlun. Þá hefur skólinn látið sig umhverfismál varða.

Nemendur á unglingastigi skólans lentu í 2. sæti í samkeppninni Umhverfisfréttafólk sem Landvernd stóð fyrir í maí síðastliðnum. Verkefnið, Electronic Waste, fjallar um lélega nýtingu á raftækjum og hve lítill hluti þeirra er endurunninn. Auk þess komst annað verkefni nemenda skólans í undanúrslit í keppninni en það fjallaði um matarsóun í skólanum.

UNESCO-skólar er eitt elsta skólanet í heimi, starfrækt frá árinu 1953. Skólarnir eru nú um 12 þúsund talsins og starfa í yfir 180 löndum um allan heim.

UNESCO-skólar leggja áherslu á heimsmarkmiðin, starfsemi SÞ, alþjóðasamvinnu og frið og mannréttindi.

DEILA