Munum eftir formæðrum okkar! – í tilefni af 19. júní

Hún amma mín varð aðeins 20 ára en hún dó 21. júní 1917 á Ísafirði. Á þeim tíma hafði hún náð að gifta sig og eignast tvö börn. Eldra barnið var ekki orðið eins árs þegar það hafði misst bæði móður sína og yngri systur. Það var pabbi minn.

Litli drengurinn þurfti snemma að sjá fyrir sér hjá vandalausum en veganestið sem hann fékk hjá móður sinni var fámuna styrkur og þrautseigja. Hann vildi ekki feta í fótspor ættingjanna heldur fara ótroðnar slóðir. Hann vann að því öllum árum að komast í skóla og fara suður til Reykjavíkur í kennaranám. Fyrir tilstilli skýrrar sýnar og hjálp góðra manna, tókst það.

Á kirkjugarðsvegg, Eyrarkirkjugarðs, við Ísafjarðarkirkju hangir nú minningarplatti um ömmu og börnin hennar tvö en þær mæðgur hvíla þar í óþekktum leiðum, ekki einu sinni saman. Á þeim tíma voru berklar í algleymingi og lélegur húsakostur gat gert það að verkum að fólk veiktist og dó, langt um aldur fram . Það gerðist einmitt með ömmu sem fékk ásamt fjölskyldunni inni í slíku húsi í Bolungarvík. Síðan hefur sem betur fer mikið vatn runnið til sjávar hvað varðar húsnæðis- og heilbrigðismál á Íslandi.

Minnumst formæðra okkar sem gáfu okkur svo mikið. Ekki bara lífsviljann, baráttuandann og seigluna gegnum genin heldur börðust þær fyrir þeim réttindum sem okkur þykir sjálfsögð í dag. Hinn 19. júní 1915, tveimur árum áður en amma dó, höfðu konur 40 ára og eldri fengið kosningarétt. Árið 1918 var aldursákvæðið lagt niður og konur fengu jafnan kosningarétt á við karla. Réttindi sem víð teljum í dag vera sjálfsögð.

Það er mikilvægt að horfa til framtíðar og staldra ekki of lengi við það sem liðið er, en það er samt mikilvægt að muna eftir þjóðarsálinni. Það sem gerir okkur að þeirri þjóð sem við erum í dag. Við megum ekki gleyma hvað stutt það er síðan meirihluti þjóðarinnar lifði við ótrygga atvinnu og í lélegu húsnæði. Við þurfum einnig að muna eftir þeim réttindum sem við höfum náð fram og gæta þess að glutra þeim ekki niður vegna áhuga- og skilningsleysis.

Ein leiðin til þess er að muna eftir formæðrum okkar!

Í minningu um Björgu Pétursdóttur f.1.10.1896, d. 21.7.1917 og börn hennar Björgu Sumarliðadóttur f. 27.5.1917- 7.6.1917 og Pétur Sumarliðason kennara f. 24.7.1916 -d. 5.9.1981.

Björg Pétursdóttir.

DEILA