Tökumst á við vandann

Á brattann var að sækja fyrir og því ekki á bætandi sú tilkynning stjórnar Hólmadranga, sem barst í gær, að hætta starfsemi fyrirtækisins um næstu mánaðamót. Verst er höggið fyrir þá tuttugu starfsmenn sem sagt hefur verið upp í Hólmavík og nú ríður á að stuðningskerfi þeim til handa virki fljótt og sem skyldi. En staðan er líka afar brothætt fyrir samfélagið í heild á Ströndum og þess vegna er nú að ýmsu að hyggja af hálfu hins opinbera. Sem betur fer logar ljós í rökkrinu og tækifæri eru til sóknar og uppbyggingar ef rétt er á málum haldið eins og ég ætla að reyna reifa hér stuttlega.

Uppbygging og framkvæmdir í fiskeldi standa nú yfir innst í Ísafjarðardjúpi við Nauteyri og ég hef haft af því fregnir frá forsvarmönnum að vöntun er á starfsfólki. Í því geta falist tækfæri. Steingrímsfjarðarheiði er reyndar ekki alltaf greiðfær yfir vetrartímann en þess vegna er afar brýnt að Vegagerðin bæti til muna vetrarþjónustuna þannig hún verði hið minnsta sambærileg og jafn góð og í öðrum landshlutum þar sem um fjallvegi er að fara.

Líta verður líka til þess að Orkubú Vestfjarða hefur tilkynnt um áform sín um jarðhitaleit á Gálmaströnd í Steingrímsfirði og raforkuframleiðslu með Kvíslártunguvirkjun innar í firðinum. Með slíkum innviðum og miklu raforkuöryggi skapast alvöru möguleikar í til að mynda landeldi, seiðaeldi, þörungaeldi sem og ræktun. Fyrir er nægt landrými, aðgengi að köldu vatni og ljósleiðari. Ekkert er heldur því til fyrirstöðu að mínu mati að ráðist verði í burðarþolsmat fyrir Steingrímsfjörð.

Sveitastjórn Standabyggðar hefur sýnt það að hún hefur haft augu á þessum tækifærum og hefur átt í viðræðum við fyrirtæki um samstarf til að opna á þessa möguleika til atvinnuuppbyggingar og sóknar. Í því sambandi held ég að það sé kannski ekki alveg öllum ljóst að það er eingöngu einum og hálfum tíma lengra í akstri til Hólmavíkur frá Reykjavík en til Þorlákshafnar.

Miklu skiptir að leitað verði leiða til að flýta eins og kostur er öllum þessum áformum og ríkisvaldið svari fljótt ýmsum spurningum sem að því beinist í þessum efnum. Ég bind vonir við að með aðkomu sveitastjórnar Strandabyggðar og fulltingi fjórðungssambands Vestfirðinga sem og annarra sem að málum þurfa að koma verði hægt að leggja skýrar línur um uppbyggingu og góðar framtíðarhorfur fyrir byggðalagið allt.

Teitur Björn Einarsson,

þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmis

DEILA