Heimsækjum Þingeyri 2023

Blábankinn hefur birt viðburðadagatalið fyrir Dýrafjörð í sumar.

Á hverjum degi frá 1. júní til 31. ágúst er einhvers konar afþreying og þjónusta í boði í firðinum og hægt að njóta stórbrotinnar náttúru Dýrafjarðar með ýmsu móti. Fjörðurinn er jú rómaður fyrir fegurð og kyrrð og þekkt sögusvið úr Íslendingasögunum, eins og gestir geta fræðst um í sumar.

Annað árið í röð sýna Dýrfirðingar gestrisni sína undir yfirskriftinni Heimsækjum Þingeyri, og hafa tekið saman á einn stað alla þá afþreyingu, viðburði og þjónustu sem í boði er yfir sumartímann, til að auðvelda gestum að njóta dvalarinnar í firðinum fagra.

Þar má nefna Kómedíuleikhúsið sem t.d. fræðir gesti um Gíslasögu á skemmtilegan hátt í minnsta leikhúsi landsins í Haukadalnum.

Svo er hægt að prófa sjósund undir leiðsögn heimafólks, sem endar vitaskuld í heitu pottunum í sundlauginni en hún er staðsett hjá tjaldstæðinu og þar er einnig frábær strandblakvöllur fyrir þau sem vilja spreyta sig.

Annað sport sem flest geta prófað eru kajaksiglingar en það er tilvalin leið til að njóta náttúrufegurðar Dýrafjarðar, ekki síst í miðnætursólinni.

Fyrir meiri rólegheit verður boðið upp á fjölskyldujóga og náttúrugöngur sem svo mætti enda með snarli á hótelinu, Simbahöllinni eða Gemlufalli. 

Handverksfólk sýnir og selur afurðir sínar í Koltru en þar er einnig upplýsingamiðstöðin. Listasýningar verða í allt sumar í Hótel Sandafelli og Simbahöllinni og einnig verður Hljóðfærasafnið með opnar dyrnar, en það á einn helsti langspilssmiður landsins og kannski hægt að panta hjá honum eitt stykki langspil í leiðinni. 

Ekki láta ykkur bregða þótt þið sjáið víkingum bregða fyrir í Dýrafirðinum, þeir eru bestu skinn en verða þó nokkuð fyrirferðarmiklir á Víkingahátíðinni þótt þeir gangi tæplega berserksgang um þorpið. 

Dýrafjarðardagar verða haldnir á ný þriðju helgina í júlí og ber upp á sömu helgi og Hlaupahátíð Vestfjarða fer fram, svo það verður stöðugt líf og fjör á Þingeyri í sumar.

Kíkið á viðburðadagatalið hér og endilega deilið sem víðast.

DEILA