Hjörtur Jónsson Hjartar fæddist þann 11. júní 1948 á Flateyri við Önundarfjörð.
Foreldrar hans voru hjónin Jón F. Hjartar, íþróttakennari og skrifstofumaður frá Suðureyri við Súgandafjörð, f. 15. ágúst 1916, d. 31. maí 1996, og Ragna H. Hjartar, bankastarfsmaður frá Flateyri við Önundarfjörð, f. 3. júlí 1927, d. 11. nóvember 2019.
Bræður Hjartar eru Friðrik J. Hjartar prestur, f. 8. október 1951, kvæntur Önnu Nilsdóttur, og Rúnar J. Hjartar vélvirkjameistari, f. 27. september 1958. Kona hans er Áslaug Arndal.
Hjörtur kvæntist 14. mars 1970 Jakobínu Sigríði Sigtryggsdóttur, f. 21. janúar 1948. Foreldrar hennar voru Sigtryggur Klemenzson seðlabankastjóri, f. 20. ágúst 1911, d. 18. febrúar 1971, og Unnur Pálsdóttir húsfreyja, f. 23. maí 1913, d. 1. janúar 2011.
Hjörtur og Jakobína eignuðust tvö börn.
Þau eru;
1) Sigtryggur Klemenz, f. 30. júlí 1970, kvæntur Ragnheiði Guðmundsdóttur. Fjögur börn þeirra eru Hjörtur Páll, f. 1993, Herdís Helga, f. 1995, Halldór Klemenz, f. 2000, og Helena Kristín, f. 2011.
2) Ragna, f. 5. júní 1983. Sambýlismaður hennar er Simon Reher. Sonur þeirra er Hjörtur S. Hjartar, f. 2017.
Hjörtur lauk gagnfræðaprófi frá Núpi í Dýrafirði 1966, símvirki frá Póst- og símaskólanum 1969. Próf í kerfisfræði frá Ålborg Handelsskole (EDB-skolen) 1974. HA í viðskiptafræði frá Álaborgarháskóla 1977. Cand. merc. í rekstrarhagfræði frá sama skóla 1979.
Hjörtur var starfsmaður í tölvudeild Loftleiða hf. frá 1970 til 1973 þegar hann hélt til náms í Danmörku. Hann vann með námi í tölvudeild Aalborg Kommune og rekstrardeild Álaborgarháskóla eftir nám. Hjörtur fluttist aftur til Íslands 1980 og varð rekstrarráðgjafi hjá Hagvangi, forstöðumaður hjá Olíuverzlun Íslands og hagfræðingur Félags íslenskra iðnrekenda.
Hjörtur hóf störf hjá Eimskipafélagi Íslands 1987. Fjölskyldan fluttist til Rotterdam 1989 þar sem hann veitti starfsstöðvum Eimskips forstöðu. Í sömu erindagjörðum fóru þau til Hamborgar og Gautaborgar og síðast Árósa fram til 2006, með stuttu stoppi á Íslandi um aldamótin þegar Hjörtur var framkvæmdastjóri TVG Zimsen.
Frá 2006 fram til 2008 var Hjörtur í viðskiptaþróunarverkefnum í Bosníu og Króatíu og seinna vann hann í sérverkefnum fyrir Arion banka.
Hjörtur var í stjórn og stjórnarformaður Orf Líftækni frá 2010 til 2017 og formaður FIVE Invest ehf. fram á dauðadag.
Hjörtur var virkur félagi í Oddfellow-reglunni, Skýrslutæknifélagi Íslands sem og Sænsk-íslenska viðskiptaráðinu. Hjörtur og Jakobína áttu stóran vinahóp og félagsskapurinn í Union of Icelandic Badminton Players og gönguhópnum Sigurtá var honum mikilvægur og voru farnar margar ferðir bæði innanlands og utan.
Hjörtur J. Hjartar lést á taugadeild Landspítalans þann 17. nóvember 2019.