Orkubúið leggur fram matsáætlun vegna Kvíslatunguvirkjunar

Orkubú Vestfjarða hefur lagt fram matsáætlun vegna umhverfismats Kvíslatunguvirkjunar í Strandabyggð. 

Matsáætlun liggur frammi til kynningar á skrifstofu Strandabyggðar á Hólmavík og hjá Skipulagsstofnun Borgartúni 7b.

Kvíslatunguvirkjun felur í sér virkjun vatns sem nú fellur í Selá, að mestu um Þjóðbrókargil og í minna mæli um Svartagil, Afréttargil og Ófærugil.

Með tveimur stíflum verður myndað 0,57 km2 inntakslón í lægð þar sem Efri-Kotvötn eru nú í um 409 m hæð yfir sjó. Gert verður 2,07 km2 stórt miðlunarlón, kallað Svartagilslón, með einni stíflu austan við útrennsli Svartagilsvatns sem er í hæð 447 m y.s., ásamt veitu norðvestan við lónið, kölluð Svartagilsveita. Einnig er reiknað með veitu norðvestan við Svartagilsvatn, kölluð Ófæruveita, sem mun stækka vatnasvið miðlunarinnar um 5,13 km2

Megin kvíslinni sem rennur í Þjóðbrókargil og afrennslinu frá Svartagilslóni þarf að veita með fyrirhleðslum í farvegum og um 1.000 m löngum veituskurði í inntakslónið.

Áætlað er að uppsett afl virkjunarinnar verði allt að 9,9 MW sem miðast við 2,9 m3 /s virkjað rennsli og að orkuframleiðsla verði um 50-70 GWh/ári.

Horft í suðvesturs þar sem vatn rennur úr Efri-Kotsvötnum í áttina að kvíslinni sem rennur um Þjóðbrókargil. Hér mun Syðri Kotvatnastífla rísa.
DEILA