Sýning á verkum listahjónanna Gunnars Guðmundssonar og Guðmundu Jónu Jónsdóttur frá Hofi Dýrafirði verður opnuð á Núpi í Dýrafirði á sunnudaginn kl. 14. Sýnt verður í einni af hinum einstöku skólastofum Núpsskóla og hefur því stofan fengið nafnið Gunnars- og Mundustofa. Í tilefni opnunarinnar verður tilboð á sér dýrfirskum veitingum í veitingasalnum. Vaffla með rjóma og rabbabarasultu úr sérmerktum rabbabara úr Skrúð og kaffi með því.
Gunnars- og Mundustofa verður opin í allt sumar á opnunartíma Núps. Sýningin er styrkt af Menningarnefnd Ísafjarðarbæjar.
Í umsögn um sýninguna segir Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur og barnabarn þeirra hjóna:
,Hjónin Gunnar Guðmundsson (1898-1987) og Guðmunda Jóna Jónsdóttir (1905-1991) frá Hofi í Dýrafirði skildu eftir sig mikinn arf, jafnt í minningum um ástríkar og hlýjar manneskjur sem einstökum listaverkunum sem þau hófu að skapa á efri árum og hér getur að líta brot af.
Guðmunda bjó til myndverk úr skeljum, steinum og muldu grjóti sem hún límdi á rekavið, pappadiska, glerflöskur og krossvið.
Gunnar hóf sjötugur að mála með olíulitum á striga. Oft leynist í myndum hans huldufólk við nánari athugun: andlit í kletti eða álfur bak við stein.
Á heimili sínu á Þingeyri skópu þau einstakt ævintýraland sem engum gleymist sem þangað kom.“