Ísafjarðarbær: tilboð í malbikun 31 m.kr. undir kostnaðaráætlun

Fjögur tilboð bárust í malbikun gatna í Ísafjarðarbæ, en þau voru opnuð í síðustu viku. Malbikun Norðurlands átti lægsta tilboðið sem var 77,7 m.kr. Kostnaðaráætlun var 109,0 m.kr. Lægsta tilboðið var því 31,1 m.kr. undir kostnaðaráætlun eða 29%.

Colas Íslandi bauð 86,8 m.kr. , Malbikun Akureyrar 92,4 m.kr. og Malbikunarstöðun bauð 143,8 m.kr.

Bæjarráð samþykkti að taka tilboði Malbikunar Norðurlands.

Á Ísafirði er stærsta verkefnið malbikun Æðartanga 3.490 fermetrar og 1.200 fermetrar á Fjarðarstræti auk 1.720 fermetra við Funa. Þá verða malbikaðir 580 fermetrar á Skógarbraut, 400 fermetrar á Tungubraut og 625 fermetrar við Bræðratungu.

Á Þingeyri verður Sjávargata/Hafnargata malbikuð og verða það 1.800 fermetrar svo og 860 fermetrar við Íþróttamiðstöðina.

Á Flateyri verður Eyrarvegur malbikaður og eru það 2.270 fermetrar og á Suðureyri Freyjugata um 530 fermetrar.

DEILA