Verið er að vinna áhættumat siglinga fyrir Ísafjarðardjúp. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að áhættumatið sé á lokametrunum fyrir tvö svæði í Djúpinu, Arnarnes og Kirkjusund.
Hann segir ekki hægt að svara því ennþá hvort takist að greiða úr þar sem eldissvæði lenda innan hvíts ljósgeira og vísar í greinagerð Svæðisráðs Vestfjarða með strandsvæðaskipulaginu:
„Jafnframt hefur Ísland gengist undir að taka skuli mið af alþjóðlegum tilmælum og viðmiðunarreglum þegar sett er upp leiðsögukerfi fyrir sjófarendur. Það er gert til þess að sjófarendur upplifi kerfið sem einsleitt og það virki á sama hátt á alþjóðavísu. Þannig á alltaf að vera hægt að sigla án nokkurra hindrana í hvítum ljósgeira hvar sem er í veröldinni.“
og
„Í einhverjum tilvikum kann fyrirhuguð staðsetning sjókvía að hafa þau áhrif að breyta þurfi merkingum. Í þeim tilvikum er mikilvægt að þær breytingar fari eftir viðurkenndu alþjóðlegu ferli og að engin starfsemi sé heimiluð á þeim hluta hafflatar sem merktur er sem örugg siglingaleið fyrr en búið er að breyta þeim merkingum.“
Upplýsingafulltrúinn segir því ljóst að ekki sé hægt að verða við þessu þar sem eldi lendir innan ljósgeira því þá það þyrfti þá að endurskoða siglingaleiðir í Djúpinu í heild sinni. Hann segir að ekki hafi verið óskað eftir því að farið verði í þá vinnu.
Hlutar þessara svæða liggja þó utan hvítra geira og gerir Vegagerðin ekki athugasemd við að þeir hlutar séu nýttir.