Ísafjarðarbær: launakostnaður 2,2% undir áætlun

Grunnskólinn á Ísafirði.

Fyrstu fjóra mánuði ársins er launakostnaður Ísafjarðarbæjar 1.077 m.kr. Er það 24 m.kr. undir áætlun eða 2,2%. Þetta kemur fram í minnisblaði deildarstjóra launadeildar sem lagt var fyrir bæjarráð.

Helstu frávikin eru að launakostnaður hafnarsjóðs eru 14 m.kr. umfram áætlun, hafa verið 67 m.kr. en voru áætluð 53 m.kr. Veikindi eru gefin upp sem skýring.

Þá var launakostnaður velferðarsviðs 14 m.kr. undir áætlun, reyndist vera 220 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 234 m.kr. Er það einkum vegna búsetu á Pollgötu og í Sindragötu, en launakostnaður varð um 20 m.kr. lægri en áætlað var. Eru stöðugildin 7 færri en ætlað var, 19 í stað 26. Launakostnaður vegna búsetu í Fjarðarstræti varð hins vegar 4 m.kr. umfram áætlun.

Launakostnaður við fræðslumál varð 493 m.kr. en áætlunin hljóðaði upp á 511 m.kr. og munar 18 m.kr. Helsta frávikin var í Grunnskólanum á Ísafirði sem var 13 m.kr. undir áætlun. Stöðugildin voru 58 í stað 62. Þá var launakostnaður við Grænagarð á Flateyri 2 m.kr. undir áætlun og stöðugildin 4 í stað 5. Launakostnaður við Tjarnarbæ á Suðureyri var einnig 2 m.kr. undir áætlun.

DEILA