Í Kastljósi RÚV í fyrrakvöld var viðtal við Viðar Kristinsson á Ísafirði sem fyrir tæpum tveimur árum lenti í snjóflóði í Eyrarfjalli ofan bæjarins. Viðar var á fjallaskíðum með Hauki Sigurðssyni frænda sínum er þeir settu af stað snjóflóð ofarlega í brekkunni innan við Grænagarð, snjóflóðið hreif Viðar með sér og endaði hann ofan á flóðinu um 350 metrum neðar í brekkunni. Hann var illa brotinn á hægri handlegg, hryggjarliðir féllu saman og það þurfti að sauma yfir þrjátíu spor í höfuðið á honum. Haukur slapp naumlega og gat hann strax hringt eftir aðstoð og var fyrst hlúð að Viðari í brekkunni, en hann var svo fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem tók við langt og strangt bataferli.
Viðar var vel tryggður og hafði sérstaka frístundatryggingu sem hann hafði óskað eftir vegna þess að hann stundaði t.a.m. fjallaskíði og klifur, en þegar hann ætlaði að sækja bætur hjá tryggingafélagi sínu, Sjóvá, eftir slysið kom hann að lokuðum dyrunum. Í 69. grein tryggingaskilmála þeirra segir: „Félagið bætir ekki tjón sökum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða, vatnsflóða og annarra náttúruhamfara.“ Í svarbréfi Sjóvár var bent á að Viðlagatryggingar Íslands bætti munatjón í snjóflóðum. En Viðlagatryggingarnar höfnuðu kröfu Viðars einnig þar sem þar er aðeins bætt tjón sem verður við náttúruhamfarir. Þetta snjóflóð hafi hins vegar verið af mannavöldum.
Niðurstaða Hörpu Grímsdóttur, fagstjóra ofanflóðavaktar á Veðurstofunni var sú að flóðið teldist ekki til náttúruhamfara í eiginlegri merkingu þess orðs, þar sem það var af mannavöldum og segja má að mál Viðars hafi lent á milli báts og bryggju. Hann ætlar þó að halda málinu áfram með lögfræðingi sínum til að fá úr þessu skorið, þar sem hann telur frístundatrygginguna ná yfir slys af þessu tagi. Þar sem í tryggingaskilmálanna segir meðal annars: „Með orðinu slys er hér átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama vátryggðs og gerist án vilja hans.“
Í umfjöllun Kastljóss var meðal annars bent á að fólk hér á landi væri í síauknu mæli farið að stunda útivist allan ársins hring og þar á meðal fjallaskíðamennsku sem tæplega teldist lengur til jaðarsports og þyrfti það því að vera þess vel meðvitað hvað tryggingar ná yfir og hvað ekki – líkt og snjóflóð.
Umfjöllun Kastljóssins í heild sinni, þar sem meðal annars er að finna viðtal fréttaritara RÚV á Vestfjörðum Höllu Ólafsdóttur við Viðar.
annska@bb.is