Arnarlax: metafkoma á fyrsta ársfjórðungi ársins

Björn Hembre kynnir afkomu Arnarlax á fyrsta ársfjórðungi 2023.

Arnarlax hf kynnti í morgun niðurstöðu af rekstri fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi ársins. Um var að ræða besta ársfjórðung í rekstri fyrirtækisins frá upphafi.

Slátrað var 6.572 tonnum af laxi, sem er tvöfalt meira magn en var á sama tímabili í fyrra. Tekjur urðu 69 milljónir evra, sem samsvarar liðlega 10 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi gengi. Hagnaður fyrir skatta, það er tekjur umfram kostnað, varð 18,4 milljónir evra eða 27% af tekjunum. Það jafngildir um 2,8 milljörðum íslenskra króna.

Miðað við þessar tölur hefur meðalverðið á hvert kg af seldum eldislax verið um 1.580 kr.

Skuldir lækkuðu um 20 milljónir evra eða um 3 milljarða íslenskra króna á ársfjórðungnum.

Verð fyrir laxinn voru há, sérstaklega í Evrópu og var meira af afurðunum selt þangað á tímabilinu. Búist er við mun minna magni sem slátrað verði á öðrum ársfjórðungi en horfur eru góðar á árinu og er búist við að framleiðslan verði 16.000 tonn. Nýjar kvíar 200 metrar í ummál hafa reynst vel.

Sett verða um 20-25% fleiri seiði út í ár en í fyrra og seiðin eru að meðaltali um þriðjungi stærri en áður eða um 200 grömm í stað 150 gramma og stærstu seiðin eru um 700 grömm að þyngd.

Fram kom í kynningunni að umsókn Arnarlax um 4.500 tonna eldi í Arnarfirði er í biðstöðu, en búist er við því að fyrirtækið fái 10.000 tonna leyfi í Ísafjarðardjúpi. Óvissa er um hvort eða hve mikið af því er til eldis á frjóum laxi.

Uppfært 14.5. kl 23:30. Leiðrétt var stærð kvíanna í fréttinni. Það er ummálið sem er 200 metrar en ekki þvermálið.

DEILA