Súðavík: framkvæmdir við bílastæði vegna aukinna umsvifa í Súðavíkurhöfn

Súðavíkurhreppur er í framkvæmdum vegna aukinna umsvifa við Súðavíkurhöfn segir Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri. Einkum í því skyni að beina umferð frá tanganum við suðurgarðinn, þar sem hafa skapast vandræði við höfnina vegna kyrrstæðra bíla á svæðinu sem hafa hindrað nauðsynlega umferð stærri ökutækja.

Nokkrir sumarbúar í Súðavík hafa gert athugasemdir við framkvæmdirnar og segja þær í leyfisleysi þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning.

Að sögn Braga var nærtækast að koma fyrir bílastæði sem næst tanganum þar sem viðskiptavinir Iceland Sea Angling hafa lagt við hafnarbakka, nær eingöngu erlendir ferðamenn sem koma hér til þess að stunda sjóstangveiði. Því var talið heppilegast að útbúa bílastæði sem stæði þeim til boða og leigja það félaginu.

Bragi Þór Thoroddsen segir framkvæmdir vera innan marka skipulagslaga, en hafi verið stöðvaðar af hendi Súðavíkurhrepps vegna ábendinga um eignarhald á nákvæmlega því svæði sem um ræðir. „Þinglýstum gögnum, skráningum og ábendingum hugsanlegra eigenda ber ekki saman. Það er raunverulega staðan á því í augnablikinu enda ekki ætlan Súðavíkurhrepps að leggjast í framkvæmdir á svæði sem ekki tilheyrir sveitarfélaginu.“

Ábendingar sem fram hafa komið verða að sögn Braga teknar fyrir á fundi skipulags-, bygginga-, umhverfis- og samgöngunefndar í dag, miðvikudaginn 10. maí og væntanlega rætt í sveitarstjórn á fundi þann 12. maí.

DEILA