Sóknarhópur Vestfjarða stofnaður

Innan Vestfjarðastofu hefur nú verið stofnaður Sóknarhópur Vestfjarða. öllum fyrirtækjum á Vestfjörðum er boðið að vera hluti af Sóknarhópnum. Það hefur verið kallað eftir meira samstarfi við Vestfjarðastofu og ekki síður bættu samstarfi milli vestfirskra fyrirtækja segir í fréttatilkynningu frá Vestfjarðastofu.

Markmiðið er að skapa samstarfsvettvang fyrirtækja til að vinna að og gæta hagsmuna fyrirtækja á Vestfjörðum. Á þessum vettvangi geta aðilar rætt saman og staðið vörð um sameiginlega hagsmuni allra atvinnurekenda á Vestfjörðum.

Með breytingum á samþykktum Vestfjarðastofu, fá fyrirtækin á Vestfjörðum sterkari aðkomu að stefnumótun, verkefnavali og hagsmunagæslu í gegnum Sóknarhóp en úr honum eru kosnir aðilar inn í stjórn. Atvinnulífið er drifkrafturinn í samfélaginu og hefur verið kallað eftir því að rödd atvinnulífsins sé sterkari.

Breytingarnar eru þær helstar að:

  • Á ársfundi kýs sóknarhópur 5 manna stjórn sem öll er í fulltrúaráði Vestfjarðastofu.
  • 4 efstu úr kjöri eru aðalmenn í stjórn Vestfjarðastofu og 1 er varamaður.
  • Sóknarhópur heldur minnst tvo fundi á ári og einn fundi á ári með stjórn Vestfjarðastofu
  • Sóknarhópur kemur að gerð stefnu og starfsáætlun Vestfjarðastofu
  • Stjórn sóknarhóps getur ályktað um hagsmunamál Vestfjarða
  • Aðilar að sóknarhópi greiða árgjald til Vestfjarðastofu
  • Fyrirtæki og stofnanir sem eru þegar meðal stofnaðila greiða einnig árgjald.
  • Sveitarfélög greiða árstillag til Fjórðungssambands Vestfirðinga sem samkvæmt samningi sem rennur til Vestfjarðastofu

Nánari upplýsingar og skráning eru á síðu Vestfjarðastofu www.vestfirdir.is/soknarhopur Núverandi meðlimir Markaðsstofunnar eru sjálfkrafa hluti af Sóknarhópnum og hafa þannig sama aðgang inn í stjórn Vestfjarðastofu. Þetta er tækifæri til að vinna saman og hafa áhrif á stefnur og strauma í hagsmunagæslu og mynda saman sterka rödd Vestfjarða.

Stofnfundur Sóknarhóps verður haldinn þriðjudaginn 16. maí 2023 kl 16:00 og fer fram á netinu í streymi. Þeir sem eru skráðir í Sóknarhópinn fá senda slóð á fundinn. Á fundinum verða kosnir fulltrúar úr Sóknarhópnum í stjórn Vestfjarðastofu.

DEILA