Súðavík: sumarbúar mótmæla bílastæði

Eigendur sumarhússins að Aðalgötu 30 í Súðavík, Birgir Sigfússon og Sara Lind Þrúðardóttir hafa ritað sveitarstjórn Súðavíkur bréf og gera athugasemdir við framkvæmdir á græna, opna svæðinu fyrir framan húsið. Um er að ræða grænt svæði í eigu Súðavíkurhrepps, sem ætlunin er að rífa upp og breyta í bílastæði. Fara þau fram á að hætt verði við framkvæmdirnar og bílastæðum fundinn skynsamlegri staðsetning, Telja þau að framkvæmdin stangist á við lög og reglugerðir og engin grenndarkynning hafi átt sér stað. Segja þau í erindinu að forkastanlegt sé „að eyðileggja fallegt grænt svæði sem stendur í miðjum gamla hluta bæjarins þar sem þúsundir fólks á leið um, sérstaklega yfir sumartímann. Þess utan er hugmyndin engan veginn réttlætanleg, að koma fyrir bílastæðum ofan í lóðarmörk sumarhúsanna við Aðalgötu 30 og 32, með allri þeirri útblástursmengun sem fylgir bílum.“

Þá sé nægt bílastæðapláss við litla geymsluhúsið (Aðalgata 28) og út að félagsheimilinu fyrir allt að 10 bíla.

DEILA