Verið er að koma upp salernum fyrir ferðamenn á 15 stöðum hringinn í kringum landið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Rifjað er upp að stjórnstöð ferðamála hafi fyrr á þessu ári skilgreint brýn forgangsverkefni vegna yfirstandandi árs og hafi eitt af þeim verið að bæta aðgengi ferðamanna að salernum á landsbyggðinni – einkum á þeim stöðum í vegakerfinu þar sem langt væri í næstu þjónustu.
„Þess má geta að þar með eru svo til öll forgangsverkefni sem Stjórnstöðin tilgreindi komin til framkvæmda eða í öruggu ferli með tilheyrandi fjármagni. Má þar nefna fjölmargar úrbætur í öryggismálum ferðamanna – samanber m.a. stóraukin framlög í nýjum samstarfssamningi um SafeTravel verkefni Landsbjargar – aukna landvörslu og fleira,“ segir ennfremur. Ráðuneytið standi straum af öllum kostnaði við verkefnið sem nemi um 90 milljónum.
Salernin verða staðsett á eftirfarandi stöðum:
Vestfirðir
Melanes
Hvalsá
Hvannadalsá
Hvítanes
Suðurland
Djúpá
Laufskálavarða
Vesturland
Reykjadalsá – Dalir
Kattahryggur
Norðurland
Ljósavatn
Norðausturland
Jökulsá á fjöllum
Hringvegur við Norðausturveg/Vopnafjörður
Jökulá á Dal
Suðausturland
Fossá
Þvottá
Hestagerði