Forsætisráðherra í Edinborgarhúsinu á fundi um sjálfbæra þróun

Frá fundinum í morgun í Edinborgarhúsinu.

,,Sjálfbær þróun er eitt mikilvægast mál samtímans“, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á opnum fundi sem haldinn var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í hádeginu í dag sem bar yfirskriftina Samtal við forsætisráðherra um sjálfbæra þróun.  ,,Sjálfbær þróun er verkefni samfélagsins alla og mikið í húfi að þjóðir heims taki höndum saman og vinni að sjálfbærni á öllum sviðum,“ sagði Katrín.

Meðal frummælenda á fundinum var Eiríkur Örn Nordahl rithöfundur sem hélt athyglisvert erindi sem fjallað um hvenær væri komið nóg, hvort sem um væri að ræða fiskeldi, túrisma, skemmtiferðaskip, Teslur, togara eða ferðir til Tenerife?  Eftir framsöguerindi var fundargestum skipt niður á umræðuborð með umræðustjórum þar sem góðar umræður fóru fram tengd nokkrum lykilviðfangsefnum  Sjálfbærrar þróunar á Íslandi.

Fundurinn á Ísafirði í dag ver sá sjötti í fundaferð forsætisráðherra um Ísland til að móta stefnu Íslands um sjálfbæra þróun.  Búið er að halda fundi á Akureyri, í Kópavogi, í Borgarnesi á Selfossi og á Egilsstöðum.  Þann 4 maí næstkomandi verður haldinn fjarfundur fyrir allt landið og síðasti fundurinn í fundaröðinni verður svo á Höfn í Hornafirði 5. maí nk. 

Sjálfbær þróun þróun er þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Slík þróun snýst um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld fyrir alla jarðarbúa til langs tíma. Markmið sjálfbærrar þróunar er að koma á sjálfbærni í samfélaginu í heild og á jörðinni.   

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, formaður bæjarráðs Vesturbyggðar.
Eiríkur Örn Norðdahl var frummælandi á fundinum. Til vinstri er Sigríður Gísladóttir og Steinþór Bragason til hægri.

Myndir: aðsendar.

DEILA