Laxeldi: erlent fjármagn forsenda uppbyggingarinnar

Kvíar í Arnarfirði

Erlent fjármagn hefur verið lykilatriði í uppbyggingu á laxeldi á Íslandi síðusta áratuginn. Nærri þrjátíu milljarðar króna hafa runnið til uppbyggingar eldsins í formi áhættufjármagns síðustu árum.

Þetta kemur fram í umsögn Arnarlax við þingsályktun um eignarhald í laxeldi sem fimm þingmenn flytja á Alþingi. Fyrsti flutningsmaður er Halla Signý Kristjánsdóttir. Þar er lagt til að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að:
     a.      koma fram með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum,
     b.      skoða hvort takmarka eigi eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum.

Í umsögninni er lagst gegn tillögunni og bent á að aðeins fimm fyrirtæki hafi leyfi til laxeldis í sjó á Ísland. Öll séu þau smá á alþjóðlegan mælikvarða og sem dæmi þá hafi minnsta skráða laxeldisfélag skráð á aðallista í Noregi framleitt um 50.000 tonn 2021. Ekkert innlendu fyrirtækjanna nái því. Ógjörningur sé að geta sér til um hver staðan verði í þessari ungu grein að 10 árum liðnum en víst er að hún þurfi áfram greiðan aðgang að áhættufjármagni.

Takmarkanir á stærð félaganna muni draga úr samkeppnishæfni og takmarka aðgang að fjármagni í áhættusama uppbyggingu. „Ljóst er að veruleg fjárfesting er nauðsynleg til að byggja greinina frekar upp næstu ár og arður hefur aldrei verið greiddur úr fyrirtækjunum enda fyrirsjáanleg fjárfestingarþörf mikil.“ segir í umsögninni.

Arnarlax hafi byggt upp starfsemi með 200 nýjum störfum á Vestfjörðum og alls óvíst að það hefði gerst án aðkomu erlendra fjárfesta. Félagið sé skráð á markað í norsku kauphöllinni og fjöldi eigenda skipti hundruðum. Stærsti hluthafinn er norska félagið Salmar ASA sem er einnig skráð í kauphöll en þar að baki standa um 7-10.000 hluthafar. Á meðal hluthafa er Gildi lífeyrissjóður, einn stærsti lífeyrissjóður landsins og Stefnir, sjóðastýringarfyrirtæki Arion banka, sem fjárfestu í félaginu við skráningu undir lok árs 2020 auk fjölda annarra íslenskra fjárfesta.

Minnt er á í umsögn Arnarlax að eignarhald í hefðbundnum sjávarútvegi er að nær öllu leyti íslenskt. „Engu að síður hefur stórútgerð nánast horfið frá Vestfjörðum. Þessu er þveröfugt farið í tilviki fiskeldisins þar sem fjölmörg störf hafa
skapast í brothættum byggðum, ekki síst fyrir tilstilli erlends fjármagns.“

Landvernd hefur einnig sent inn umsögn um tillöguna. Þar kveður við annan tón.

Stjórn Landverndar telur skynsamlegt að banna frekari vöxt á fiskeldi í sjókvíum þar til endurbótum á lögum og reglum er lokið og gerð hefur verið ítarleg úttekt á áhrifum þessarar starfsemi á lífríkið við strendur landsins. „Ef niðurstaða rannsókna staðfestir víðtæk neikvæð umhverfisáhrif eins og allt bendir nú til, er sjálfgefið að fyrirliggjandi starfsleyfi verði ekki endurnýjuð þegar að því kemur.“

DEILA