Könnun um sjávarútvegsmál: kvótakerfið nauðsynlegt en virkar ekki eins og það átti að gera

Guðbjörg ÍS 46. Mynd: aflafrettir.

Í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála kemur fram að 70% eru sammála því að það hafi verið nauðsynlegt að taka upp kvótakerfi á sínum tíma til þess að vernda fiskistofnana og aðeins 13,5% eru því ósammála. Á öllum landssvæðum er þetta yfirgnæfandi afstaða. Þó eru fæstir sammála á Vestfjörðum og Austfjörðum um 60% og á Vestfjörðum eru nærri 30% ósammála sem er meira en tvöfalt hærra hlutfall en á landsvísu. Á Austurlandi eru 19,2% ósammála því að nauðsynlegt haft verið að koma á kvótakerfinu.

Þá er athyglisvert að flestir eru sammála í hópi yngstu svarenda 18 – 29 ára en þar eru nærri 86% sammála því að nauðsynlegt hafi verið að koma á kvótakerfinu. Fjörtíu ár eru síðan fyrstu kvótalögin voru sett.

en virkar ekki eins og því var ætlað

Í annarri spurningu eru svarendur inntir eftir því hvort þeir séu sammála eða ósammála því að kvótakerfið virki eins og því var ætlað að gera. Þar eru svörin mjög afgerandi. Sammála eru 22,4% en ósammála hvorki fleiri né færri en 59,3%. Þrír af hverjum fjórum sem afstöðu taka eru ósammála því að kvótakerfið virki eins og því er ætlað og aðeins einn af hverjum fjórum er því sammála. Hátt hlutfall þeirra sem svöruðu könnuninni yfirleitt svöruðu þessari spurningu eða 82,7% og af þeim eru 70% ósammála því að kerfið virki eins og til var ætlast.

Þetta eru svörin eftir 40 ára kvótakerfi og 33 árum eftir að lögin um varanlega kvótakerfið með framsali voru samþykkt þann 5. maí 1990.

sanngjarnt gjald og hagkvæm nýting mikilvægust

Þá var spurt hvað af eftirfarandi væri mikilvægast að lög um stjórn fiskveiða stuðli að og gefnir nokkrir svarmöguleikar. Langflestir eða 42,5% svöruðu því til að sanngjarnt gjald af nýtingu fiskistofnana sem rynni til þjóðarinnar væri það mikilvægasta. Næst var hagkvæm nýting fiskistofnana en 18,7% tölu það mikilvægast. Umhverfisvernd varð í 3. sæti sem mikilvægasta atriðið með 11,8% og traust atvinna kom næst með 11,5%. Byggð hringinn í kringum landið var næst með 6,8%.

Svör Vestfirðinga í könnuninni við þessari spurningu voru mjög í samræmi við svörin á landsvísu, t.d. töldu 43,1% Vestfirðinga sanngjarnt gjald mikilvægast og 17,2% nefndu hagkvæma nýtingu.

Þá var önnur spurning þar sem svarendur voru beðnir um að nefna það atriði sem þeim þætti næstmikilvægast á eftir því sem þeir höfðu sett í fyrsta sæti sem mikilvægast. Sömu svör komu upp og í fyrri spurningu. Sanngjarn gjald fékk 22,6% í annað sætið og hagkvæm nýting 22,2%. Í þriðja sæti við þessari spurningu var að þeir sem nýti fiskistofnana standi straum af kostnaði við fiskveiðistjórnunarkerfið, 17,5% settu það sem næstmikilvægasta atriðið.

DEILA