Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands kannaði í marsmánuði viðhorf landsmanna til sjávarútvegs fyrir Matvælaráðuneytið og niðurstöður könnunarinnar voru birtar nú í morgun. Í úrtaki voru 2.579 manns. Svör bárust frá 1.133 eða 44%.
Það málefni sem langflestur töldu mesta þörf á úrbótum í eru heilbrigðismálin. 66,8% nefndu heilbrigðiskerfið og í öðru sæti voru sjávarútvegsmálin með 9,6%. Samgöngukerfið er í þriðja sæti með 9,4%. Samkvæmt þessu brenna sjávaútvegsmálin ekki mest á þjóðinni, heldur heilbrigðismálin.
Viðhorf svarenda til sjávarútvegsmálanna voru hins vegar tiltölulega skýr þegar skoðuð eru svörin. Um þrír fjórðu telja stöðu íslensks sjávarútvegs vera góða metna á heimsvísu og aðeins 6% telja hana slæma. Þá er sjávarútvegurinn frekar talinn vera nútímalegur.
Umræðan um atvinngreinina er hins vegar talin neikvæð af um 60% svarenda og aðeins 12% telja hana jákvæða. Rúmur helmingur eða 56,6% eru ósáttir við fiskveiðistjórnunarkerfið og 22% eru sáttir við það. Þegar skoðuð eru svörin sundurliðuð eftir landshlutum kemur í ljós að svörin á Vestfjörðum eru svipuð og á landsvísu. Ósáttir eru 49,2% og sáttir 25,4%.
69% telja sjávarútveg spilltan
Spurt var um hvernig svarandi mæti sjávarútveg á mælikvarða frá 1 til 7, þar sem 1-3 er spilltur og 5- 7 er heiðarlegur. Svörin við spurningunni voru mjög afgerandi. Nærri 70% telja greinina spillta en aðeins tæplega 15% telja hana heiðarlega.
Verðmæti fyrir fáa
Tveir þriðju svarenda eða um 65% segja sjávarútveginn skapa verðmæti fyrir fáa og um 20% að greinin skapi verðmæti fyrir sem flesta.