Fossavatnsgangan, stærsta skíðagöngumót landsins, fór fram á Ísafirði í dag, laugardag. Það voru þau Nadja Kaelin frá Sviss og Mathias Aas Rolid frá Noregi sem komu fyrst í mark í kvenna- og karlaflokki í 50 kílómetra göngunni. Efstu Íslendingarnir í göngunni voru þau Snorri Einarsson frá Ísafirði og Andrea Kolbeinsdóttir frá Reykjavík.
„Keppnin gekk einstaklega vel í ár, í rauninni betur en við þorðum að vona, enda hefur snjóleysi aðeins verið að hrjá okkur,“ segir Kristbjörn Róbert Sigurjónsson, betur þekktur sem Bobbi, starfsmaður göngunnar. „Mér hefur sýnst svo til hver einasti þátttakandi koma brosandi í mark, enda lék veðrið við okkur, nánast logn, dálítil þoka í efstu hlutum brautarinnar en engin úrkoma.“
Alls 300 keppendur voru mættir á ráslínuna fyrir 50 kílómetra gönguna klukkan átta í morgun en þar að auki voru 92 keppendur í 25 kílómetra göngunni og 37 í 12,5 kílómetra göngunni. Vegna leysinga undanfarnar vikur þurftu skipuleggjendur göngunnar og starfsfólk skíðasvæðisins á Ísafirði að vera lausnamiðaðir í lagningu brautanna, og raunar voru brautirnar allar styttri en venjulega; 50 km brautin var um 46 km, 25 km brautin var um 24 km og 12,5 km brautin var um 9 km. Þrátt fyrir skort á nýjum snjó voru aðstæður í brautunum nokkuð góðar, með hröðu rennsli í efstu brekkunum.