Nýsköpunarviðburðurinn Hacking Vestfjarðaleiðin fer fram 22. apríl næstkomandi á Kaffi Riis á Hólmavík og lýkur kl 20:00 um kvöldið með verðlaunaafhendingu. Hacking Hekla er samstarfsvettvangur og fyrsta röð lausnamóta fyrir landsbyggðina sem ferðast hringinn í kringum landið. Vettvangurinn Hacking Hekla varð til 2020 og hélt fyrsta lausnamótið á Suðurlandi það haust og í kjölfarið Hacking Norðurland vorið 2021, Hacking Austurland haustið 2021 og Hacking Reykjanes 2022.
Lausnamót er einskonar nýsköpunar- og hugarflugsviðburður þar sem nýjar hugmyndir og verkefni verða til. Þátttakendur fá fræðslu og innblástur til að virkja sköpunarkraftinn og vinna markvisst að því að leysa áskorun mótsins. Að þessu sinni verður unnið að þeirra áskorun að hanna kolefnishlutlausa Vestfjarðaleið en leitað er eftir hugmyndum að lausnum á sviði orkunýtingar, samgangna, ferðaþjónustu, innviða, matarsóunar, viðhorfa og venja, samfélags, iðnaðar og framleiðslu og fleira. Kolefnishlutleysi snýr ekki eingöngu að samgöngum heldur svo mörgu öðru í okkar samfélagi. Útkoman úr lausnamótinu getur verið stafræn lausn, vara, þjónusta, verkefni, hugbúnaður, vélbúnaður, markaðsherferð, eða annað í þeim dúr.
Markmið lausnamótsins er að efla sköpunarkraft og frumkvöðlastarf á svæðinu og stuðla þannig að nýjum verkefnum og viðskiptatækifærum sem og að vekja athygli á frumkvöðlasamfélaginu sem nú þegar er til staðar á Vesturlandi og Vestfjörðum.
Lausnamótið er opið öllum sem hafa áhuga á að nýsköpun, vilja kynnst nýju fólki og í sameiningu leysa áskoranir svæðisins. Þátttakendur þurfa ekki að búa yfir reynslu eða hafa tekið þátt áður í lausnamóti eða öðru frumkvöðlastarfi. Allir eru velkomnir og þetta er frábær leið til að efla skapandi hugsun og þjálfast í ferlinu að koma góðum hugmyndum í framkvæmd.
Veitt verða peningaverðlaun fyrir bestu hugmynd mótsins sem og fjöldi aukavinninga frá frumkvöðlum og fyrirtækjum á svæðinu.
Virkjum skapandi krafta svæðisins í átt að kolefnishlutlausri Vestfjarðaleið!
Skráning á www.hackinghekla.is / viðburðurinn á facebook: https://www.facebook.com/events/1249317852347534
Hacking Vestfjarðarleiðin er samstarfsverkefni Hacking Hekla, Vestfjarðarstofu, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Bláma. Verkefnið er styrkt af Lóu.
Frekari upplýsingar veitir Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, Vestfjarðastofu, netfangið thorkatla@vestfirdir.is.