Gullkarfi getur orðið 90-100 cm en er sjaldan lengri en 40-50 cm. Algeng stærð er 35-40 cm.
Heimkynni gullkarfa eru í Norður-Atlantshafi og Barentshafi, en hann er einnig við Labrador og Nýfundnaland og suður til Maineflóa í Bandaríkjunum.
Við Ísland er karfinn allt í kringum landið en hann er mun algengari suðaustan-, sunnan- og vestanlands en undan Norður- og Austurlandi.
Karfinn er ýmist miðsævis- eða botnfiskur – oft við botn á daginn en upp í sjó á nóttunni – og veiðist hann niður á 500 m dýpi og stundum dýpra, en best virðist hann kunna við sig á 100-400 m dýpi.
Það sem greinir gullkarfa og hans nánustu ættingja frá flestum öðrum beinfiskum er að hann á lifandi afkvæmi og gýtur hann í einu 37-350 þúsund seiðum.
Fæða karfans er einkum smákrabbadýr (ljósáta, rauðáta o.fl.), pílormar og fiskseiði þegar hann er ungur (minni en 20 cm) en fullorðnir karfar éta aðallega ljósátu og ýmsa fiska eins og síld, loðnu, þorskfiska auk rækju o.fl.
Fræðiheiti: | Sebastes norvegicus |
---|---|
Danska: | stor rødfisk |
Færeyska: | stóri kongafiskur |
Norska: | uer |
Sænska: | rödfisk, större kungsfisk |
Enska: | golden redfish, red ocean perch, redfish |
Þýska: | Goldbarsch |
Franska: | grand sébaste, poisson rouge, sébaste atlantique |
Spænska: | gallineta dorada |
Portúgalska: | peixe vermelho, vermelho |
Rússneska: | Морской окунь золотистый / Morskój ókun’ zolotístyj |
Af vefsíðunni hafogvatn.is